Home Fréttir Í fréttum Auglýsir nýtt útboð vegar um Hornafjörð í einkafjármögnun

Auglýsir nýtt útboð vegar um Hornafjörð í einkafjármögnun

106
0
Tölvuteikning af nýrri leið yfir Hornafjörð. Verkinu fylgja alls fjórar nýjar brýr og nítján kílómetrar af nýjum vegum. VEGAGERÐIN

Vegagerðin hefur auglýst í annað sinn útboð nýs kafla hringvegarins um Hornafjörð eftir að hafa í síðasta mánuði hafnað báðum tilboðum sem bárust í upphaflegu útboði.

Þessi fyrsta tilraun til einkafjármögnunar í vegagerð á grundvelli nýlegra laga um samvinnuverkefni fer þannig brösuglega af stað en lögin heimila ríkinu að heimta vegtolla og semja við einkaaðila um fjármögnun samgönguframkvæmda.

Aðeins tvö tilboð bárust í fyrsta útboðinu. Þegar þau voru opnuð þann 17. febrúar síðastliðinn reyndust þau bæði hátt yfir sjö milljarða króna kostnaðaráætlun. Það lægra frá Ístaki, upp á átta og hálfan milljarð króna, reyndist 21,5 prósenti yfir áætlun. Hærra tilboðið, frá ÞG verktökum, reyndist 40,5 prósentum yfir.

Tilboðin eru í framkvæmd og fjármögnun verksins.
GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON

Tvö önnur stórverk, ný Ölfusárbrú við Selfoss og vegur yfir Öxi, milli Egilsstaða og Djúpavogs, eru einnig komin í útboðsferli á grundvelli sömu laga en útboð Ölfusárbrúar var auglýst í vikunni. Það er því mikið í húfi að þetta fyrsta verkútboð, Hornafjarðarfljót, klúðrist ekki.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði fyrir þremur vikum að með breyttri nálgun ætti að freista þess að fá betri tilboð. Útboðinu yrði breytt þannig að núna yrðu framkvæmdin og fjármögnun á verktíma boðin út en langtímafjármögnun sérstaklega boðin út síðar.

Fyrirhuguð brú yfir Hornafjarðarfljót.
VEGAGERÐIN

Verkið sjálft er óbreytt en það felur í sér styttingu hringvegarins um tólf kílómetra og fækkun einbreiðra brúa. Verkinu fylgja alls fjórar nýjar brýr og nítján kílómetrar af nýjum vegum. Verkinu á að skila fullbúnu eigi síðar en 1. október 2025.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og tekið fram að bjóðendur þurfi að uppfylla hæfisskilyrði. Tilboðsfrestur rennur út þann 17. maí næstkomandi.

Heimild: Visir.is

Previous article20.05.2022 Íþróttamiðstöð í Búðardal – alútboð
Next articleEndurbætur á Tryggvagötu