Eyjafjarðarsveit og Ölduhverfi ehf. hafa undirritað samning um uppbyggingu nýs 200 íbúða hverfis í landi Kropps í Eyjafjarðarsveit. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við hverfið hefjist síðari hluta ársins 2022, að því er kemur fram í tilkynningu.
Hverfið sem hefur fengið nafnið Ölduhverfi mun verða hluti af þéttbýliskjarnanum við Hrafnagil en þar er að finna alla helstu þjónustu sveitarfélagsins, leik- og grunnskóla, sundlaug, íþróttahús og skrifstofu Eyjafjarðarsveitar.
Kemur fram í tilkynningunni að uppbygging hverfisins verði í einkaframkvæmd. Er þá átt við uppbyggingu og lagningu innviða, gatna- og stígagerð og fráveitukerfi.
„Að uppbyggingu lokinni mun Eyjafjarðarsveit taka yfir og eignast opin svæði, lóðir, götur, gangstíga og aðra þá innviði sem tilheyra rekstri sveitarfélaga og annast viðhald þeirra til frambúðar,“ segir í tilkynningunni.
Gera ráð fyrir lágri byggð
Gert er ráð fyrir lágri byggð í Ölduhverfi. Eins til tveggja hæða húsa, einbýlis-, par og raðhúsum ásamt litlum sex til átta íbúða fjölbýlishúsum. „Byggðin mun falla vel að landslaginu og landhalli á svæðinu verður nýttur til að allar íbúðir hverfisins njóti mikils útsýnis.“
„Ölduhverfi er byggð í skjóli skóga. Stórt opið svæði er í miðju hverfinu sem einnig tengist fjölbreyttum skógarstígum, vinsælum hjóla- og göngustíg milli Akureyrar og Hrafnagils. Svæðið bíður því upp á fjölbreytta möguleika til útivistar allt árið um kring,“ segir í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is