Home Fréttir Í fréttum atNorth reisir gagnaver á Akureyri

atNorth reisir gagnaver á Akureyri

173
0
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu viljayfirlýsingu um byggingu gagnavers í dag. Aðsend mynd

atNorth stefnir á að hefja framkvæmdir við nýtt gagnaver á Akureyri á næstu mánuðum.

<>

Akureyrarbær og atNorth undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu og rekstur gagnavers á Akureyri.

Samkvæmt yfirlýsingunni leigir fyrirtækið lóð til starfseminnar á skipulögðu athafnasvæði í útjaðri bæjarins, þar sem atNorth stefnir á að hefja framkvæmdir á næstu mánuðum.

Viðskiptablaðið sagði frá því í haust að atNorth hafi lagt fram fyrirspurn í september um lóð undir gagnaver við Hlíðarfjallsveg. Í erindinu fyrirtækisins var óskað eftir eins hektara lóð með forgangsrétt að nærliggjandi lóðum til stækkunar.

Í tilkynningu sem atNorth sendi frá sér í dag segir forstjórinn Eyjólfur Magnús Kristinsson kosti þess að byggja gagnaver á Akureyri ótvíræða. Hann bætir einnig við að flugsamgöngur hafi skipt sköpum við valið, enda taki aðeins um 60 mínútur að komast frá Reykjavíkurflugvelli inn í nýtt gagnaver atNorth á Akureyri.

„Hér er til staðar mikil þekking, mannauður og traust fyrirtæki sem geta veitt atNorth góða þjónustu við rekstur og viðhald á tæknibúnaði í gagnaverinu. Héðan ætlum við bæði að þjóna innlendum og erlendum viðskiptavinum, en með gagnaveri á Akureyri getum við dreift betur áhættunni í rekstrinum. Vistun og vinnsla gagna fer þá fram á fleiri stöðum en áður, aðgengi að gagnatengingum úr landi verður betra og öryggismálum verður enn betur fyrir komið,” segir Eyjólfur Magnús.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, fagnar boðaðri uppbyggingu og segir hana styrkja atvinnulífið á svæðinu.

„Þetta verkefni rímar vel við nýlegar innviðaframkvæmdir á Norðausturlandi sem tryggja raforkuflutning inn á svæðið. Aukið öryggi í flutningi raforku inn á Eyjafjarðarsvæðið gerir uppbyggingu af þessu tagi mögulega með öllum þeim jákvæðu samfélagsáhrifum sem fylgja,” segir Ásthildur.

atNorth rekur fyrir gagnaver í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og í Stokkhólmi í Svíþjóð. Í tilkynningu fyrirtækisins segir að eftirspurn eftir þjónustunni sé mikil um þessar mundir og er hafin vinna við stækkun gagnaversins í Stokkhólmi og í Reykjanesbæ.

Þá leitar fyrirtækið að staðsetningu fyrir stórt gagnaver á Norðurlöndum sem mun nýta um 50MW af raforku til starfseminnar.

Heimild: Vb.is