Mikil óvissa ríkir nú hjá verktökum vegna yfirvofandi lokunar á Bolaöldu í hlíðum Vífilfells. „Við lesum bara viðtal við Elliða Vignisson, bæjarstjóra Ölfuss, í lok mars um að það eigi að loka Bolaöldu fyrir móttöku jarðvegsúrgangs 1. apríl,“ segir Stefán Gestsson, framkvæmdastjóri hjá Vörubílastöðinni Þrótti.
„Við erum með töluvert af vörubílum á okkar vegum sem eru að keyra þangað daglega og okkur brá mjög. Í dag kostar ekkert að sturta úrgangi af vinnusvæðum þarna upp frá. Núna heyrir maður út undan sér að það eigi að fara að innheimta gjald sem gjörbreytir stöðunni hjá okkur. Ef það gerist er grundvöllur tilboða okkar í verk hruninn og þetta mun hafa keðjuverkandi áhrif út í samfélagið með hækkandi byggingarvísitölu og aukinni verðbólgu.“
Erfitt að reka fyrirtæki í óvissu
Stefán fékk fá svör frá borgaryfirvöldum fyrr en aðfaranótt 1. apríl, þegar honum var sagt að hætt hefði verið við að loka þann dag og að hægt yrði að fara með úrgang af byggingarsvæðum næstu tvo mánuði í Bolaöldu. „Hvað þá tekur við er alveg óljóst,“ segir Stefán. Skrýtið sé að ekkert samband sé haft við hagsmunaaðila í málinu.
„Það er mjög erfitt að reka fyrirtæki í svona óvissu. Við erum að gera tilboð í verk og þurfum nú að endurskoða öll tilboð með tilliti til hærri kostnaðar. Við erum með um 70 bílstjóra á okkar vegum og erum stór hagsmunaaðili að þessu máli. Svona breytingar þurfa meiri fyrirvara en bara nokkra daga.“
Vísar málinu til föðurhúsanna
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir engan samning á borðinu um notkun Bolaöldu fyrir urðun frá höfuðborgarsvæðinu.
„Það hefur verið samkomulag undanfarið um að Sorpa sæi um reksturinn á Bolaöldu, en mér finnst ekkert eðlilegt að við séum með þetta á okkar landi þar sem við höfum ekki tekið á móti einni steinvölu úr Ölfusi í Bolaöldu og höfum engar tekjur af þessari starfsemi.“
Hann segist hafa skilning á óvissuþættinum sem skapist hjá verktökum vegna málsins, en vísar því til borgarinnar og sveitarfélaganna sem hafa verið að nýta sér svæðið gjaldtökulaust. „Þessi mál verður að leysa þar sem þau eiga heima.“