Home Fréttir Í fréttum Stokkur tryggi betra flæði

Stokkur tryggi betra flæði

72
0
Hér má sjá yfirlitsmynd þar sem horft er til norðurs yfir Vogatorg. Aðsend mynd

Stefnt er á að á hluti Sæbrautar verði lagður í stokk svo að betra flæði náist á milli Vogahverfis og Vogabyggðar.

<>

tefnt er á að á hluti Sæbrautar verði lagður í stokk svo að betra flæði náist á milli Vogahverfis og nýs hverfis sem stendur hinum megin við Sæbrautina og er kallað Vogabyggð. Samkvæmt Græna plani Reykjavíkurborgar er um 2,2 milljarða króna fjárfestingu að ræða.

Sumarið 2020 var efnt til hugmyndaleitar og óskaði innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar, fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar í samstarfi við Verkefnastofu Borgarlínu, eftir tilboðum í hugmyndavinnu um fyrirkomulag uppbyggingar á og við vegstokka á Sæbraut við Vogahverfi.

Verkefnahópi á vegum borgarinnar var falið að velja fimm teymi úr hópi sjö teyma sem óskuðu eftir þátttöku. Í kjölfarið var fimm teymum falið að koma fram með tillögur og skiluðu þau inn tillögum í apríl 2021.

Niðurstaða verkefnahópsins var sú að áfram yrði unnið með tillögu Arkís arkitekta, Landslags og Mannvits. Í niðurstöðu verkefnahóps borgarinnar segir að umrædd tillaga hafi orðið fyrir valinu þar sem hún væri í heild skýr og auðskiljanleg, útpæld og trúverðug. Tillagan feli í sér fjölbreytileika innan áhugaverðs ramma.

Samtenging milli hverfa myndi fallega og áreynslulausa heild og byggðarmynstur, þar sem eldri byggð falli vel saman við nýja Vogabyggð. Samgöngutengingar milli nýrra og eldri byggðar séu almennt góðar. Borgarlínustöð sé aðgengileg og fléttist vel inn í hverfið en sé nokkuð sunnarlega.

Leiðir Borgarlínu séu óþvingaðar og sýndar tengingar við Reykjanesbraut. En mögulega þurfi að skoða betur samspil Borgarlínu og bílaumferðar. Græn svæði fléttist vel inn í byggðina og séu alls staðar nálæg. Göngu- og hjólaleiðir myndi þétt og gott net með áhugaverðum skátengingum. Netið sé að hluta sjálfstætt án þess að vera samsíða götum og bæti þannig aðskilnað fararmáta.

Vogatorg hjarta tillögunnar

Í tillögu Arkís, Landslags og Mannvits er svokallað Vogatorg í lykilhlutverki. Er torgið sagt lykillinn að því að tengja Elliðaárdal og Laugardal með samfelldum grænum innviðum. Enn fremur sé Vogatorg mikilvægur tengipunktur í samgöngukerfi borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins alls, enda tengist þar samgönguásar sem liggi annars vegar frá austri til vesturs og hins vegar frá norðri til suðurs.

Þróun Vogatorgs sé möguleg með tilkomu Sæbrautarstokks sem tengi fyrrnefnd hverfi í samfellt byggðamynstur þar sem öruggar samgöngur vistvænna samgöngumáta séu í forgangi.

Í tillögunni segir jafnframt að Vogatorg muni bjóða upp á verslun, þjónustu og atvinnuhúsnæði í bland við fjölbreyttar íbúðagerðir. Almennt sé gert ráð fyrir tveggja til fimm hæða byggð sem sæki formtungumál og yfirbragð til þeirra hverfa sem umfaðmi Vogatorg.

Við sjálft Vogatorg sé gert ráð fyrir nokkuð hærri kennileitisbyggingu sem verði sýnileg frá nálægum hverfum og þeim umferðaræðum sem eru í nánasta umhverfi.

Útfærslu stokksins er lýst svo að gegnumferð sé beint neðanjarðar í gegnum stokk meðan almenningssamgöngur og róleg innanhverfisumferð ferðist í sátt við aðra ferðamáta á yfirborðinu.

Suðurendi stokks sé áður en komið er að Dugguvogi en norðanmegin sé stokkendinn áður en komið er að Skeiðarvogi, þar sem verði ljósastýrð gatnamót. Suðurlandsbraut tengist Dugguvogi yfir suðurenda stokks og Snekkjuvogur verði framlengdur yfir stokk og tengdur Tranavogi. Umferð einkabíla verði leyfð á báðum stöðum.

Mitt ofan á suðurenda Sæbrautarstokks er gert ráð fyrir kjarnastöð Borgarlínu sem bjóði upp á fumlaus skipti milli ólíkra leiða Borgarlínu og strætisvagna. Vogatorgið sjálft sé veglegt, en þó hæfilega stórt, skjólsælt og sólríkt torg þar sem aðgengismál séu eins og best verður á kosið.

Torgið verði nýr hverfiskjarni bæði Vogabyggðar og Vogahverfis, umlukið verslunar-, þjónustu- og veitingarýmum. Torgið tryggi samfellda græna tengingu milli Elliðaárdals og Laugardals.

Framkvæmdum átti að ljúka á þessu ári

Í sáttmála um samgöngur sem ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes undirrituðu í lok september árið 2019, var gert ráð fyrir að framkvæmdir við Sæbrautarstokk myndu hefjast á síðasta ári og að þeim yrði lokið á þessu ári.

Þar sem framkvæmdin er enn á hugmyndastigi og tillagan krefst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi borgarinnar er ljóst að framkvæmdin mun klárast síðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það má því vænta þess að enn séu nokkur ár í að framkvæmdum ljúki.

Heimild: Vb.is