
Unnið er við að rífa gömul einbýlishús sem eru á þéttingarreit í nágrenni Hamraborgar í Kópavogi, svokölluðum Traðarreit eystri. Jáverk ehf. hefur jarðvegsframkvæmdir vegna byggingar um 180 íbúða á reitnum fljótlega eftir páska og er áformað að fyrstu íbúðirnar verði afhentar kaupendum um mitt ár 2024.
Byggingarreiturinn er á milli Menntaskólans í Kópavogi og Kópavogsskóla og liggur að Digranesvegi í suðri. Þar voru átta lágreist íbúðarhús með stórum görðum, með um tólf íbúðum. Félag hóf uppkaup húsa þarna fyrir nokkrum árum en Hamur þróunarfélag, systurfélag Jáverks ehf., tók síðar við verkefninu.

Komið hefur fram að reiturinn er um 7.800 fermetrar að stærð. Eftir breytingar á skipulagi er nú gert ráð fyrir byggingu fjölbýlishúsa með 180 íbúðum. Þeim fylgja yfir 250 bílastæði, flest í bílakjallara.
Fjölbreyttar íbúðagerðir
Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, er ánægður með blöndun íbúðastærða. Segir að gert sé ráð fyrir fjölbreyttum íbúðagerðum og stærðum, allt frá 40 fermetra íbúðum og upp í veglegar þakhæðir.
„Útsýni verður hvergi betra á höfuðborgarsvæðinu, vil ég meina. Húsin verða byggð hringinn í kringum reitinn, þó brotin upp og með góðum innigarði. Staðsetningin er góð, á milli tveggja skóla og miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gylfi.
Hann segir áformað að afhenda fyrstu íbúðirnar um mitt ár 2024 og verkefninu verði lokað innan við ári síðar.
Heimild: Mbl.is