Tillaga, sem kveður á um að hluti Reykjanesbrautar verði lögð í stokk, varð hlutskörpust í hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar ásamt byggð yfir og/eða við Reykjanesbraut á vegum Kópavogsbæjar.
Gerbreytt yfirbragð blasir við Smárahverfi í Kópavogi miðað við vinningstillöguna. Þar er einnig gert ráð fyrir tengingum fyrir vistvæna ferðamáta, svo sem stöð fyrir Borgarlínu ásamt tengingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Niðurstaða keppninnar var kynnt í dag og verðlaunahöfum veittar viðurkenningar. Nafn vinningstillögunar er Borg í mótun/Grænn miðbær.
Bæjarstjórn Kópavogs átti frumkvæðið að hugmyndasamkeppninni og var keppnin unnin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.
„Markmið Kópavogsbæjar með samkeppninni var meðal annars að styrkja svæðiskjarnann í Smára og efla tengsl á milli svæða innan kjarnans fyrir alla ferðamáta. Verðlaunatillögur verða til sýnis í Bókasafni Kópavogs fram yfir helgi og og aðgengilegar á vef Kópavogsbæjar,“ segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Höfundar verðlaunatillögunnar eru ASK arkitektar ehf., Þorsteinn Helgason, arkitekt FAÍ, Jakob Jakobsson, arkitekt FAÍ, aðstoð veittu: Anna Margrét Sigmundsdóttir, arkitekt FAÍ og Páll Gunnlaugsson, arkitekt FAÍ.
Dómnefnd var skipuð eftirfarandi aðilum: Hrafnkell Ásólfur Proppé, skipulagsfræðingur, formaður dómnefndar, fulltrúi Kópavogsbæjar Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi, fulltrúi Kópavogsbæjar Hjördís Ýr Johnson, bæjarfulltrúi, fulltrúi Kópavogsbæjar Birkir Einarsson, landslagsarkitekt FÍLA Hans-Olav Andersen, arkitekt FAÍ, MNA.




Heimild: Mbl.is