Home Fréttir Í fréttum Verðtryggð lán Íbúðalánasjóðs lögleg

Verðtryggð lán Íbúðalánasjóðs lögleg

85
0

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að verðtryggt lán Íbúðalánasjóðs hafi verið heimilt. Hagsmunasamtök heimilanna hafa gefið það út að næst á dagskrá sé að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn.

<>

Málið snérist í grófum dráttum um það að verðtrygging neytendalána hefðu verið kynnt ólöglega fyrir lántakendum. Hefði Hæstiréttur tekið undir þessi sjónarmið hefði verið ólöglegt að rukka verðbætur á verðtryggð húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði frá 11. janúar 2001.

Það voru hjónin Helga Margrét Guðmundsdóttir og Theódór Magnússon sem höfðuðu málið en þau nutu stuðnings Hagsmunasamtaka heimilanna. Töldu þau að Íbúðalánasjóði hefði verið óheimilt að innheimta verðbætur af láni sínu hjá sjóðnum. Á Facebook-síðu Hagsmunasamtaka heimilanna í dag sagði Vilhjálmur Bjarnason, formaður samtakanna, að ef Hæstiréttur myndi dæma Íbúðalánasjóði í vil myndi málið fara fyrir EFTA-dómstólinn.

„Ég segi bara enn og aftur að ef Hæstiréttur ætlar að dæma eftir lögum þá verður hann að dæma það ólöglegt að rukka verðtryggingu á verðtryggð lán heimilanna frá og með 11. janúar 2001 og leiðrétta þurfi það aftur til þess tíma og þá afnema hana til framtíðar á sama hátt.

Ef Hæstiréttur dæmir ekki eftir lögum og dæmir mótaðila okkar í vil þá verðum við að fara með málið fyrir EFTA og mannréttindadómstólinn.

En það versta sem gerist við það er að Hæstiréttur er þá búinn að gera ríkið, sem erum við sjálf, skaðabótaskylt fyrir leiðréttingunni í staðinn fyrir að ef þeir dæma núna fyrir jólin að við höfum rétt fyrir okkur þá kemur leiðréttingin í gegnum uppgjörið á milli gömlu og nýju bankanna og hægt verður að stilla útfærslunni á þann veg að ríkið þurfi ekkert að greiða fyrir neina leiðréttingu, ekki einu sinni fyrir leiðréttingu ÍLS lánanna.

Við gefumst aldrei upp á að gera Ísland byggilegt fyrir fjölskyldurnar og börnin okkar, aldrei,“ sagði Vilhjálmur í færslu sinni.

Heimild: DV.is