Home Fréttir Í fréttum Tveir sendu inn tilboð og hugmyndir um uppbyggingu á Rauðagerðislóð í Vestmannaeyjum

Tveir sendu inn tilboð og hugmyndir um uppbyggingu á Rauðagerðislóð í Vestmannaeyjum

363
0
Hér má sjá afstöðumynd frá SA Smíðar ehf. fyrir hugsanlegar byggingar á lóðinni.

Húseign og byggingarréttur að Boðaslóð 8-10 þar sem nú stendur Rauðagerði var auglýst til útboðs í nóvember sl. Tvö tilboð og hugmyndir bárust í lóðina.

<>

Hugmyndir tilboðsgjafa um nýtingu lóðarinnar hafa nú verið borin saman við skilmála útboðs og fundað var með tilboðsgjöfum, segir í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja.

Jafnframt segir í fundargerðinni að gögn tilboða og fyrirhugaðar hugmyndir um nýtingu hafi verið lagðar fyrir. Tilboðin sem send voru inn voru annars vegar frá SA Smíðar ehf. og hins vegar frá Steina og Olla byggingaverktökum.

Skýringarmynd af hugmyndum Steina og Olla til uppbyggingar á svæðinu.

Gera ráð fyrir 18 íbúðum á reitnum

Í greinargerð með tillögu Steina og Olla segir að fyrirhugað sé að á lóðina komi fjögur hús á tveimur hæðum. Í tveimur húsum verði fjórar íbúðir og í öðrum tveimur verði fimm íbúðir, með sér aðgengi og bílakjallara með aðgengi frá Boðaslóð.

Þá verða bílastæði staðsett sunnan megin á lóðinni með aðgengi frá Bessastíg. Gengið verður í öll húsin að norðan.

 

Báðir tilboðsgjafar uppfylla meginskilmála útboðs

Fram kemur í niðurstöðu ráðsins að báðir tilboðsgjafar uppfylli meginskilmála útboðs samkvæmt fyrirliggjandi tilboðum og fundum starfsfólks með tilboðsgjöfum.

Ráðið vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs og fól starfsmönnum sviðsins að vinna minnisblað um ferlið og tilboðin sem bæjarráð getur haft til hliðsjónar þegar tilboðin verða tekin fyrir.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin mun fara fram gerð deiliskipulags vegna lóðarinnar að Boðaslóð 8-10 skv. útboðsgögnum.

Heimild: Eyjar.net