Home Fréttir Í fréttum Haldið í gíslingu vegna framkvæmda við Vatnsstíg

Haldið í gíslingu vegna framkvæmda við Vatnsstíg

143
0
Líkt og sjá má er Vatnsstígur á milli Laugavegs og Hverfisgötu alveg lokaður vegna framkvæmda. Fréttablaðið/Samsett mynd

Anna Þóra Björnsdóttir sem rekur gleraugnaverslunina Sjáðu á horni Hverfisgötu og Vatnsstígs segir ástandið vegna framkvæmda við Vatnsstíg vera svakalega erfitt. Hún er ósátt við samráðsleysi borgarinnar við íbúa og verslunareigendur vegna framkvæmdanna.

<>

Miklar framkvæmdir hafa verið við Vatnsstíg milli Laugavegar og Hverfisgötu undanfarna mánuði og eru íbúar og verslunareigendur orðin langþreytt á hávaðanum sem þeim hefur fylgt. Hávaðinn stafar af höggbor en verið er að bora fyrir bílastæðakjallara. Borað er frá átta á morgnana til kvöldmatarleytis.

Anna Þóra segir fólk sýna framkvæmdum við götuna almennt skilning en að íbúar og verslunareigendur séu ósátt vegna þess hve lítið samráð sé haft við þau.

„Það þarf náttúrulega að halda við og svona en við erum rosalega ósátt við að það sé bara hægt að koma með svona ofboðslega háværar vinnuvélar og annað og setja okkur í gíslingu í marga mánuði.“

Ábyrgðin hjá Reykjavíkurborg

Að sögn Önnu Þóru er ábyrgðin á höndum Reykjavíkurborgar. „Verktakinn fær leyfi frá Reykjavíkurborg og hann er náttúrulega bara í viðskiptum eins og ég er í viðskiptum en við fáum engin svör og Reykjavíkurborg svarar aldrei einu né neinu og mér finnst ótrúlegt að það sé hægt gera þetta aftur og aftur við okkur,“ segir Anna Þóra og rifjar upp framkvæmdirnar við Hverfisgötu þegar gatan var tekin í gegn og segir þær framkvæmdir hafa tekið þrjú ár.

Anna Þóra segir hávaðann vegna framkvæmdanna gríðarlegan vegna klappar sem hefur þurft að brjóta. „Þeir eru búnir að vera brjóta þetta niður síðan um mánaðarmótin september, október og upp á hvern einasta dag og maður er gjörsamlega búinn og það eru allir komnir með þvílíkt stoðkerfavandamál og höfuðverk.“

Anna Þóra rekur líkt og fyrr segir gleraugnaverslunina Sjáðu og segir hún framkvæmdirnar hafa haft áhrif á viðskiptin. Mikil nákvæmnisvinna felist í sjónprófum og að erfitt sé að sinna þeim þegar tæki og tól titra og fólk heyrir ekkert.

Hér sést Vatnsstígurinn frá Hverfisgötu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ekkert samráð við íbúa

Að sögn Önnu Þóru hefði verið hægt að vinna framkvæmdirnar í samráði við íbúa og verslunareiganda. Hún segir að hægt hefði verið að hafa pásu á ákveðnum tímum dags þannig að þau hefðu getað beint viðskiptavinum á þá tíma.

Anna Þóra segist sýna verktakanum fullan skilning en er ósátt við verklag borgarinnar í málum sem þessu, „að Reykjavíkurborg skuli geta gefið leyfi fyrir svona rosalegum framkvæmdum þar sem fólk á heima og þar sem fólk vinnur og er með viðskipti án þess að þurfa nokkurn tímann að svara fyrir eitt eða neitt.“

Þá sé lítið sem ekkert eftirlit með framkvæmdunum og að mikið mildi sé að ekki hafi orðið slys á fólki vegna þeirra.

Anna Þóra segist sjálf hafa reynt að ræða við starfsmenn borgarinnar ásamt fleiri aðilum vegna framkvæmdanna en að allir bendi á hvorn annan og að enginn geti tekið neinar ákvarðanir. „Við setjum þetta alfarið á Reykjavíkurborg að þeir geti gefið svona leyfi og lagt líf fólks bara í rúst.“

 

Áhyggjur af aðgengi

Sjálf hefur Anna Þóra verið í viðskiptum í 26 ár og upplifað ýmislegt. Í haust eru 20 ár síðan Anna Þóra og fjölskylda lenti í bruna á Laugarvegi 40 þar sem verslun þeirra var áður.

Anna Þóra segir að bruninn hafi tekið aleiguna. Anna Þóra segir lokun götunnar valda henni áhyggjum, ef sambærilegt slys kæmi upp yrði aðgengi slökkviliðs, lögreglu og sjúkrabíla lítið sem ekkert. „Það er ekki hægt að segja mér að þetta sé í lagi.”

Anna Þóra Björnsdóttir, verslunareigandi, og Atli Bollason, íbúi við Vatnsstíg. Fréttablaðið/Samsett mynd

Fólk orðið þreytt

Atli Bollason, íbúi á horni Hverfisgötu og Vatnsstígs, segir framkvæmdirnar hafa staðið yfir mun lengur en upphaflega hafi staðið til. „Það er kannski helst það sem manni finnst leiðinlegt.“

Alti segir íbúa hafa sýnt framkvæmdunum skilning í upphafi en þá hafi staðið til að framkvæmdirnar stæðu yfir í tíu til tólf vikur.

„Fólk er orðið svolítið þreytt núna. Ég held að fólk hafi sýnt þessu skilning til áramóta en það er orðið heldur styttri þráður núna eftir áramót,“ segir Atli.

Að sögn Atla snýr hávaðinn við framkvæmdirnar að bílastæðakjallara sem verið er að grafa fyrir. Aðspurður hvort mikið samráð hafi verið haft við íbúa segir Atli að framkvæmdirnar hafi farið í grenndarkynningu á sínum tíma og að fólk hafi áttað sig á byggingarmagninu en að það hafi enginn átt von á að það tæki kannski hálft ár að grafa fyrir bílakjallaranum.

Hætt að heyrast í verktakanum

Atli segir búa hafa hitt verktaka framkvæmdanna einu sinni, á fundi fyrir um það bil fjórum vikum. Verktakinn hafi haft orð á því að framkvæmdirnar væru vissulega að taka lengri tíma en fyrst var áætlað. Í kjölfarið hafi verið stofnaður Facebook-hópur þar sem hægt væri að hafa samráð við íbúa en að nú sé alveg hætt að heyrast í verktakanum í þeim hópi.

Á fundinum hafi verktakinn greint frá því að hávaðinn ætti eftir að standa yfir í um þrjár vikur til viðbótar en nú séu að verða fjórar vikur síðan.

Atli segist vona að hávaðinn fari að klárast. „Það eiginlega verður að vera svo að þetta fari að taka enda. Ef að bílakjallarar almennt kalla á þetta rask fyrir íbúa þá held ég að þeir eigi að endurhugsa það í þéttingunni.“

Hér má sjá teikningar af Vatnsstíg frá Laugavegi. Ljósmynd/Vefur Reykjavíkurborgar

Allt í samræmi við samþykktir

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er útgefið afnotaleyfi til staðar fyrir framkvæmdina við Vatnsstíg og rennur gildistími þess út 19. ágúst næstkomandi.

Í svari frá borginni kemur fram að nauðsynlegt hafi verið að loka götunni á þann máta sem hefur verið gert til að tryggja öryggi vegfarenda ásamt því að koma fyrir öruggri inn- og útkeyrslu stórra vinnuvéla og bifreiða af svæðinu.

Vinnusvæðamerkingar vegna lokunarinnar hafi verið rýndar og samþykktar af skrifstofu samgöngumála.

Með afnotaleyfi

Þá hafi Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins ásamt lögreglu verið tilkynnt um lokunina, en þau fái alltaf sent afrit af öllum samþykktum og útgefnum götulokunum í borginni þegar afnotaleyfi vegna þeirra eru gefin út.

Samkvæmt upplýsingar frá Reykjavíkurborg hefur framkvæmdaaðili við Vatnsstíg haft afnotaleyfi frá lok apríl í fyrra sem nær fram til 19. ágúst þessa árs.

Viðamiklar framkvæmdir eru nú á Vatnsstíg og eru margir íbúar orðnir þreyttir á ástandinu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Slökkviliðið meðvitað um lokanir

Brynjar Þór Friðriksson, deildarstjóri á aðgerðasviði Slökkviliðsins, segir mjög algengt að götum sé lokað tímabundið.

Slökkviliðið og lögreglan fái tilkynningar frá Reykjavíkurborg reglulega vegna götulokana.

Brynjar Þór segir slökkviliðið einnig lenda óvæntum götulokunum og þá þurfi að finna leiðir fram hjá þeim.

„Það er bara daglegt brauð hjá okkur að finna aðrar leiðir í gegnum framkvæmdir og lokanir og umferðarteppur og annað slíkt,“ segir Brynjar Þór.

Getur tafið störf

Aðspurður hvort götulokanir geti tafið starf slökkviliðs og sjúkrabíla segir Brynjar auðvitað geta gerst ef óvæntar götulokanir verði á vegi þeirra.

„En við erum alltaf á ferðinni, við látum alltaf vita innan hópsins ef það eru framkvæmdir sem tefja okkur mikið. Við vitum yfirleitt af þessu og það kemur póstur til okkur frá borginni um allar svona lokanir,“ útskýrir Brynjar Þór.

Þá segir Brynjar Þór mjög algengt að götur á milli Laugavegar og Hverfisgötu séu lokaðar og því eigi slökkvilið og sjúkrabílar alltaf von á því að komast ekki þar á milli. „Bæði vegna lokana eða illa lagðra bíla.“

Heimild: Frettablaðið.is