Home Fréttir Í fréttum 22.02.2022 Vegagerðin: RFI Axarvegur (939)

22.02.2022 Vegagerðin: RFI Axarvegur (939)

213
0
Tölvuteiknuð mynd af nýrri veglínu yfir Öxi.

Axarvegur

<>

Vegagerðin leitar eftir upplýsingum um áhugasama bjóðendur vegna fyrirhugaðs útboðs samvinnuverkefnisins „Axarvegur (939) – ný veglína“, í samræmi við lög nr. 80/2020 um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

Lýsing á verkefninu

Um er að ræða nýjan heilsársveg yfir Öxi. Framkvæmdin felur í sér lagningu 20 kílómetra vegkafla frá vegamótum Skriðdals- og Breiðdalsvegar sunnan Skriðdals, yfir Öxi og niður í botn Berufjarðar að núverandi hringvegi.

Vegurinn kemur til með að liggja hæst í um 520 metra hæð yfir sjávarmáli, eins og núverandi vegur.  Gert er ráð fyrir að minnsta kosti einni brú á leiðinni, yfir Berufjarðará, en hugsanlegt er að hönnun leiði í ljós að hagkvæmt væri að hafa brýr í stað ræsa og fyllinga á fleiri stöðum.

Verkefnið felur í sér fjármögnun, hönnun nýrrar legu vegarins um Öxi (939), framkvæmd verksins, viðhald og umsjón hans til allt að 30 ára í samræmi við lög nr. 80/2020 um samvinnuverkefni.

Leitað er eftir aðilum sem hafa áhuga á að semja við Vegagerðina, í kjölfar útboðs, um hönnun, framkvæmd, fjármögnun, rekstur og viðhald mannvirkjanna til lengri tíma.

Forhönnun og umhverfismati er lokið og veglínan hefur verið staðfest í aðalskipulagi sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir að ríkið leggi til allt að 50% fjármagnsins er þarf til framkvæmdanna.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta ársins 2023.

Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig í rafræna útboðskerfinu TendSign fyrir kl. 13:00 þriðjudaginn 22. febrúar 2022. Ef frekari upplýsinga er óskað skal senda fyrirspurn í útboðskerfinu.

Athygli er vakin á því að einungis er um að ræða beiðni um upplýsingar. Skráning felur ekki í sér skuldbindingu um þátttöku í útboði á síðari stigum. Ákvörðun um að skila ekki inn upplýsingum á þessu stigi útilokar ekki þátttöku í útboði þegar það verður auglýst.