Home Fréttir Í fréttum Búið að semja við olíufélögin um að loka í íbúabyggð

Búið að semja við olíufélögin um að loka í íbúabyggð

134
0
Mynd: RÚV
Reykjavíkurborg hefur náð samningum við öll olíufélög með starfsemi í borginni um fækkun bensínstöðva í íbúahverfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni en fækkunin er í samræmi við stefnu borgarinnar í loftslags- og lýðheilsumálum.

Bensínstöðvum fækkar því í íbúðabyggð en verða áfram starfræktar fyrst og fremst við stofnbrautir. Markmiðið er að fækka bensínstöðvum í borginni um helming til ársins 2030 og að þær verði að mestu horfnar um 2040.

<>

„Með þessu er borgin að flýta fyrir umbreytingum í átt að þéttingu byggðar með aukinni áherslu á vistvænar samgöngur,“ segir í tilkynningunni.

Samningar við Atlantsolíu og Dæluna voru samþykktir í borgarráði í dag og voru það síðustu samningarnir sem eftir átti að samþykkja.

Bensínstöðvar í Reykjavík eru á fimmta tug og samkvæmt borgaryfirvöldum væri hægt að byggja allt að 1.400 íbúðir á því svæði sem nú er nýtt undir bensínstöðvar. Þessi uppbygging hefst á næstu árum og er í forgangi að fækka stöðvum innan íbúabyggðar sem og á þeim stöðum þar sem stöðvarnar þykja hafa áhrif á ásýnd byggðar.

Lóðaleigusamningar við olíufélög hafa gjarnan verið langtímasamningar, oft með flóknum uppkaupsákvæðum, segir í tilkynningunni. Með því að semja við öll olíufélögin á svipuðum grundvelli gat borgin hraðað umbreytingum en í stað bensínstöðva munu rísa íbúðabyggingar, með eða án atvinnuhúsnæðis á jarðhæð.

Olíufélögin eru með samningunum skuldbundin til að fjarlægja mannvirki og hreinsa jarðveg. Tillögur þeirra að nýbyggingum verða unnar í samráði við borgaryfirvöld og munu fara í skipulagsferli og grenndarkynningar. Ef ekki næst samkomulag um uppbyggingu verða samningar uppsegjanlegir.

„Gert er ráð fyrir að nýting og skipulag lóða taki mið af þéttingaráformum Reykjavíkurborgar og nýting lóðar í samræmi við það. Lóðarhafar samþykkja að Félagsbústaðir hf. hafi kauprétt á 5 prósent íbúða í húsum á lóðinni og kvöð er á lóðunum um að 20 prósent íbúða skuli vera leiguíbúðir, sem auk Félagsbústaði verði stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða,“ segir í tilkynningu.

Heimild: Ruv.is