Home Fréttir Í fréttum 800 þúsund fermetrinn í Norðlingaholti

800 þúsund fermetrinn í Norðlingaholti

287
0
Elliðabraut 4-10 í Norðlingaholti. Aðsend mynd

Fermetraverð íbúða við Elliðabraut í Norðlingaholti nemur allt að 800 þúsundum króna.

<>

Dýrasta íbúðin til sölu í nýbyggðum fjölbýlishúsum við Elliðabraut 4-10 er á rúmlega 800 þúsund krónur fermetrann.

Um er að ræða eina nýbyggingarverkefnið til sölu á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan póstnúmer 101 og 102.

Ómar Hvanndal, hjá Miklaborg fasteignasölu, segir í samtali við Viðskiptablaðið að salan á íbúðunum hafi verið nokkuð róleg yfir jól og áramót en hafi komist á gott skrið í janúar. Hann segir meðalverð íbúða til sölu nema rúmum 90 milljónum króna, en nokkrar stórar íbúðir á efstu hæð eru enn til sölu.

„Elliðabrautin er vandað verkefni. Aukin lofthæð er í flestum íbúðum og margar íbúðir með tveimur baðherbegjum. Auk þess eru nokkrar íbúðir á efstu hæð með 50-70 fermetra þaksvalir og garðskála,“ segir Ómar.

Hann bætir við að fjöldi bílastæða á Elliðabraut sé með því mesta sem gerist. „Öllum íbúðum fylgir eitt bílastæði í lokuðum bílakjallara og nokkrar íbúðir eru með tvö bílastæði. Jafnframt fylgir flestum íbúðum á efstu hæð bílskúr.“

Mikil hækkun húsnæðisverðs hefur verið að undanförnu hér á landi en vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 18,4% á síðasta ári.

Af því fjölbýli sem nú er til sölu með uppgefið verð er fermetraverðið hæst í lúxusíbúðunum við Austurhöfn, frá einni milljón og upp í 1,4 milljón fermetrinn.

Alma íbúðafélag komst að samkomulag síðastliðið sumar um kaupa allar 83 íbúðirnar við Elliðabraut 4-10 í Norðlingaholti af Þingvangi fyrir allt að 5.080 milljónir króna. Sem stendur eru nú 28 íbúðir af 83 auglýstar á sölu.

Alma íbúðafélag var keypt af Langasjó ehf. á 11 milljarða króna í byrjun árs. Langisjór er fjölskyldufyrirtæki í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra.

Heimild: Vb.is