Fjölmargar athugasemdir bárust áður en athugasemdafrestur rann út um þá fyrirætlun Reykjavíkurborgar að gera 4,3 hektara landfyllingu vegna nýs íbúðahverfis sem rísa á við enda Reykjavíkurflugvallar.
Um þetta er fjallað í Fréttablaðinu í dag og vitnað í kynningu borgarinnar þar sem fram kemur að strandlengjan verði þannig mótuð að hún líkist náttúrulegri strönd. Þannig geti því myndast leirur í stað þeirra sem raskist við landfyllinguna.
Landvernd segir í athugasemd að útkoman verði manngert grjótmannvirki og erfitt sé að færa rök fyrir samfélagslegri nauðsyn þess að spilla leirum sem lítið sé eftir af á höfuðborgarsvæðinu.
Reykjavíkurborg segir að landfyllingin sé nauðsynleg svo að nýja hverfið nái þeirri stærð sem þarf til að það verði sjálfbært.
Heimild: Ruv.is