Home Fréttir Í fréttum Vísitala byggingarkostnaðar hækkar um 0,6%

Vísitala byggingarkostnaðar hækkar um 0,6%

277
0

Vísitala byggingarkostnaðar, sem er reiknuð í janúar 2022, er 100,6 stig á nýjum grunni, desember 2021=100. Vísitalan mælist 0,6% hærri en í desember 2021. Kostnaður við innlent efni hækkaði um 1,2% og innflutt efni hækkaði sömuleiðis um 0,2%. Kostnaður við vélar, flutning og orkunotkun jókst um 0.2%.

<>

Nú um áramótin féllu úr gildi lög um vísitölu byggingarkostnaðar (nr. 42/1987). Frá 1. janúar 2022 er vísitala byggingarkostnaðar mæld á grundvelli laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð (nr. 163/2007).

Ný aðferðafræði
Á þessum tímamótum eru gerðar tvær breytingar á aðferðafræði við mælingu og útreikning vísitölunnar:

    1. Útreikningur á launakostnaði mun eftirleiðis taka mið af launarannsókn Hagstofu Íslands og horfið er frá fyrri aðferð sem byggði á taxtalaunum úr kjarasamningum fyrir iðnaðarmenn og verkafólk. Ávinningur af innleiðingu launarannsóknarinnar er að með henni fæst næmari mæling á launakostnaði í byggingariðnaði enda byggir launarannsóknin á gögnum um launagreiðslur sem inntar hafa verið af hendi til iðnaðarmanna og iðnverkafólks. Gögn um launakostnað í janúar 2022 liggja fyrst fyrir í febrúar 2022. Af þessum sökum kemur ekki fram breyting á launakostnaði í útreikningi vísitölu byggingarkostnaðar nú í janúar 2022.
  1. Frá og með janúar 2022 er verð byggingaraðfanga mælt án virðisaukaskatts í stað verðs með virðisaukaskatti eins og gert var til ársloka 2021. Engin verðbreyting verður í vísitölunni vegna þessa. Breytingin hefur hins vegar í för með sér að ekki verður lengur tekið tillit til endurgreiðslna virðisaukaskatts af byggingu íbúðarhúsnæðis vegna vinnu á byggingarstað.

 

Nýr grunnur og framsetning á talnaefni
Helstu breytingar sem koma fram í framsetningu talnaefnis í PX-töflum á vef Hagstofunnar:

    • Vísitala byggingarkostnaðar verður gefin út á nýjum grunni og tekur gildið 100 í desember 2021. Áður birt talnaefni fyrir eldri grunna verður áfram aðgengilegt og eldri grunnar framreiknaðir með breytingum á 2021-grunninum fyrir vísitölu byggingarkostnaðar.
    • Sundurliðaðar mælingar vísitölunnar verða birtar á hinum nýja grunni, frá desember 2021, á sama máta og hingað til. Sundurliðun á eldri grunnum verður áfram aðgengileg en færist undir eldra efni. Sundurliðaðar vísitölur verða ekki framreiknaðar á eldri grunnum.
    • Vísitala byggingarkostnaðar verður birt á útreikningstíma, bæði í heild og í sundurliðuðu efni. Birting á gildistíma fellur niður vegna þess að vísitala á gildistíma, sem áður var aðgengileg í talnaefni, var tilkomin vegna þeirra laga sem nú eru fallin brott. Gildistíminn vísaði til þess hvernig vísitala byggingarkostnaðar reiknaðist í lánskjaravísitölu á árum áður.
    • Verðgrunnur fyrir gatnagerðargjald er ný tafla sem birt er vegna laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006. Taflan kemur í stað eldri töflu sem hét „Rúmmetra- og fermetraverð í vísitöluhúsi, byggt 1987“. Hún inniheldur framreikning þeirrar talnaraðar sem áður kallaðist „fermetraverð“. Talnaröðin miðaðist í upphafi við meðalkostnað byggingaraðfanga á fermetra í húsi sem byggt var árið 1987 með byggingartækni þess tíma. Frá grunnskiptum 2010 hefur sú tímaröð verið framreiknuð með breytingum á vísitölu byggingarkostnaðar á nýjum grunni og verður svo áfram undir þessu nýja heiti.
  • PX-töflur fá ný heiti og þeir notendur sem tengja sig beint við töflurnar með API eða með öðrum leiðum munu þurfa að uppfæra hjá sér tengingar í töflurnar. Til dæmis fær tafla sem áður hét VIS03000.px nú heitið VIS13000.px.

 

Talnaefni

Heimild: Hagstofa.is