Home Fréttir Í fréttum Innviðagjald borgarinnar fer fyrir Hæstarétt

Innviðagjald borgarinnar fer fyrir Hæstarétt

64
0
Deilan snýr að innheimtu innviðagjalds í Vogabyggð, nýju hverfi í Reykjavík sem sést hér. VÍSIR/EGILL.

Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni verktakafyrirtækisins Sérverks ehf. í máli fyrirtækisins gegn Reykjavíkurborg, þar sem fyrirtækið krafði borgina um endurgreiðslu á um 120 milljóna króna innviðagjaldi sem fyrirtækið hafði greitt borginni í tengslum við uppbyggingu í Vogabyggð.

Forsaga málsins er sú að Reykjavíkurborg gerði samninga við lóðarhafa í Vogabyggð um þátttöku þeirra í kostnaði af uppbyggingu hverfisins með útgáfu skuldabréfs. Miðaðist greiðslan við stærð þeirra fasteigna sem heimilt var að reisa á hverri lóð samkvæmt nýju deiliskipulagi. Sérverk keypti lóðaréttindi af einum viðsemjanda borgarinnar, meðal annars með yfirtöku greiðsluskyldu samkvæmt skuldabréfinu.

Árið 2019 var greint frá því að stór hópur verktakafyrirtækja innan vébanda Samtaka iðnaðarins stæði að málarekstri gegn borginni, þar sem fyrirtækin og samtökin töldu lagalega óvissa ríkja um lögmæti innheimtu borgarinnar á innviðagjöldum í tengslum við uppbyggingu á húsnæðismarkaði.

Telja að dómur Hæstaréttar geti haft fordæmisgildi um ýmis mál

Verktakafyrirtækið Sérverk tók að sér að formlega stefna borginni í málinu. Aðalkrafa fyrirtækisins var sú að Reykjavíkurborg yrði dæmt til að endugreiða rétt rúmlega 120 milljónir sem fyrirtækið hafði greitt í innviðagjöld í tengslum við uppbyggingu félagsins í Vogabyggð. Byggði fyrirtækið meðal annars á því að gjaldið væri skattur eða ígildi skatts, sem ekki ætti sér stoð í lögum.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði borgina, meðal annars á þeim grundvelli að greiðsluskyldan hvíldi á gagnkvæmum samningi og væri ekki skattur. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðdóms.

Sérverk óskaði þá eftir heimild til þess að áfrýja málinu til Hæstaréttar á þeim grundvelli að málið hefði verulegt almennt gildi sem reyndi á gjaldtökuheimildir sveitarfélaga án lagaheimildar, auk þess sem að fyrirtækið telur dóm Landsréttar bersýnilega rangan.

Í ákvörðun Hæstaréttar segir að líta verði svo á að dómur Hæstaréttar í málinu kunni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem tiltekin voru í leyfisbeiðninni. Var því fallist á beiðnina um áfrýjunarleyfi.

Heimild: Visir.is

Previous articleFjórar nýjar brýr í Elliðaárdal og 6 km af stígum
Next articleStefnan var afhent ólögráða dreng