Home Fréttir Í fréttum Segir nýtt íbúðahverfi skerða rekstraröryggi flugvallarins

Segir nýtt íbúðahverfi skerða rekstraröryggi flugvallarins

132
0
Sigrún Björk Jakobsdóttir er framkvæmdastjóri Isavia innanlands, dótturfélags sem annast rekstur innanlandsflugvallanna. ARNAR HALLDÓRSSON

Óvíst er hvort Isavia muni afhenda Reykjavíkurborg svæði í Skerjafirði í vor til byggingar nýs íbúðahverfis án frekari rannsókna. Framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla Isavia segir húsbyggingar þar hafa umtalsverð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að Reykjavíkurborg er búin að skipuleggja hverfi áttahundruð íbúða á svæðinu. En fyrst þarf að færa flugvallargirðinguna til að borgin fái landið afhent. Samningur samgönguráðherra og borgarstjóra í nóvember 2019 gæti hins vegar hafa fært Isavia neitunarvald gagnfært því að girðingin verði færð.

Svona sér borgin fyrir sér nýja íbúðabyggð í Skerjafirði skammt frá flugbrautunum.
REYKJAVÍKURBORG

Í samkomulagi ríkis og borgar fyrir tveimur árum fólst í raun ákveðið vopnahlé. Rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar skyldi tryggt meðan verið væri að kanna nýtt flugvallarstæði í Hvassahrauni. Stóra spurningin er hvort færsla flugvallargirðingarinnar muni skerða rekstraröryggi flugvallarins.

„Við höfum áhyggjur af þessu. Öll þétting byggðar í kringum flugvelli hefur áhrif á aðstæður á braut, á vindafar á braut,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands, dótturfélags sem annast rekstur innanlandsflugvallanna.

Hún segir eitt það versta þegar flugvélar í vindi detti inn í lognpoll sem byggingarnar skapi þegar þær nálgist brautina. Ennfremur hafi Isavia áhyggjur af framkvæmdatímanum í hverfinu.

„Þetta er nálægt brautinni. Þarna verða reistir háir kranar. Byggingarnar hafa að vísu aðeins lækkað frá fyrstu hugmyndum. En þetta mun hafa umtalsverð áhrif á raun bara rekstrargrundvöll og afköst flugvallarins.“

Isavia segir Hlíðarendabyggð hafa merkjanleg áhrif á hreyfingar flugvéla.
VÍSIR/VILHELM

Sigrún vitnar til skýrslu sem Isavia lét hollensku geimferðastofnunina gera þar sem áhættan var talin þolanleg en samt yrði að taka tillit til hennar.

„Þetta getur skapað ókyrrð. Það er búið að setja þetta í líkön og herma þetta. Og það er sagt OK: Þetta gæti gerst einu sinni í mánuði eða eitthvað þessháttar. Við vitum það hins vegar ekki fyrr en í raun að byggingarnar eru komnar.

Við sjáum alveg áhrifin frá Hlíðarendabyggingunum. Þær hafa merkjanleg áhrif,“ segir Sigrún Björk.

Borgin vill hefja jarðvegsskipti í vor og gerð hljóðmanar, að sögn Sigrúnar.

„Það mun verða sett upp hljóðmön. Hún gæti líka haft áhrif á aðstæður á braut. Og við viljum láta skoða það dálítið rækilega áður en við gefum heimild til þess.

En áform borgarinnar eru að þessar framkvæmdir hefjist núna í vor, sumar.“

Dagur B. Eggertsson, þá staðgengill borgarstjóra, og Katrín Júlíusdóttir, þáverandi fjármálaráðherra, gerðu hinn umdeilda samning um kaup borgarinnar á flugvallarlandi ríkisins í Skerjafirði árið 2013.
REYKJAVÍKURBORG

Sigrún segir að ríkið hafi selt borginni landið fyrir átta árum og Isavia sé því í þröngri stöðu að vinna úr tveggja ára gömlu samkomulagi ríkis og borgar. En telur hún koma til greina að Isavia segi einfaldlega nei?

„Ja.. ég veit bara ekki hvort við höfum heimild til þess að segja nei. Þegar samgönguráðherra og borg hafa gert með sér samkomulag þá set ég bara spurningamerki við hversu afdráttarlaus neitun Isavia getur verið, nema að undangengnum bara mjög ítarlegum rannsóknum á afleiðingum þess.“

-En eins og þú sérð þetta núna, þá skerðir þetta rekstraröryggi flugvallarins?

„Þetta mun gera það. Öll þétting byggðar í kringum flugvelli gerir það,“ svarar Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands.

Heimild: Visir.is