Home Fréttir Í fréttum Borgin byggði á gömlum upplýsingum og því bótaskyld

Borgin byggði á gömlum upplýsingum og því bótaskyld

101
0

Kærunefnd útboðsmál telur að Reykjavíkurborg sé bótaskyld eftir að hún ákvað að útiloka fyrirtækið Vörðuberg frá útboði á gangstéttaviðgerðum.

<>

Borgin byggði ákvörðun sína á því að eigandi fyrirtækisins hefði fyrir þremur árum verið sakfelldur fyrir skattsvik.

Forsvarsmenn Vörðubergs bentu á að sá hefði verið búinn að selja eignarhlut sinn í fyrirtækinu fimm mánuðum áður en útboðið fór fram.

Reykjavíkurborg auglýsti í apríl eftir tilboðum í viðgerðir á gangstéttum og gerð nýrra gangstétta eða stíga. Kostnaðaráætlun við framkvæmdirnar hjóðaði uppá 100 milljónir króna.

Tilboð voru opnuð í byrjun maí og átti Vörðuberg lægsta tilboðið eða 92,5 milljónir króna. Borgin ákvað að útiloka fyrirtækið frá verkinu þar sem hún taldi að eigandi fyrirtækisins hefði hlotið dóm fyrir skattsvik í Landsrétti fyrir þremur árum.

Annað fyrirtækið hreppti því hnossið þótt tilboð þess hefði verið nærri 40 milljónum krónum hærra.

Vörðuberg fór fram á það við innkaupa-og framkvæmdaráð borgarinnar að útboðið yrði endurupptekið á þeim forsendum að borgin hefði byggt ákvörðun sína á röngum forsendum. Sá sem hefði verið dæmdur fyrir skattsvik væri ekki lengur eigandi. Beiðni fyrirtækisins var hafnað.

Í umsögn borgarlögmanns, sem lögð var fram á fundi ráðsins í júní, kom fram að í útboðinu hefði ekki verið að finna neinar upplýsingar um að Vörðuberg hefði gripið til ráðstafana vegna dómsins eða að eignarhald félagsins hefði breyst.

Vörðuberg kærði borgina í framhaldinu til kærunefndar útboðsmála.

Í úrskurði sínum bendir nefndin á að eigandinn sem hlaut dóminn hefði selt hluti sína í félaginu um miðjan desember á síðasta ári. Ríkisskattstjóra hefði verið tilkynnt um eigendaskiptin sama dag. Borgin hefði ekki haft neina ástæðu til að rengja réttmæti þessara gagna og því byggt ákvörðun sína á röngum forsendum.

Nefndin gerir einnig athugasemdir við að borgin hafi aflað sér upplýsinga um Vörðuberg án vitneskju fyrirtækisins og byggt ákvörðun sína á þeim upplýsingum. Borgin hefði átt að kynna Vörðubergi þessar upplýsingar áður en tekin var ákvörðun um að útiloka fyrirtækið frá þátttöku í útboðinu.

Var það niðurstaða nefndarinnar að borgin væri bótaskyld vegna kostnaðar Vörðubergs við þátttöku í útboðinu. Reykjavíkurborg er einnig gert að greiða fyrirtækinu 700 þúsund krónur í málskostnað.

Heimild: Ruv.is