Home Fréttir Í fréttum Aðstaða allt frá tennis til skíðabrekku á Egilsstöðum

Aðstaða allt frá tennis til skíðabrekku á Egilsstöðum

131
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Til stendur að útbúa nýtt framtíðar íþróttasvæði á Egilsstöðum þar sem íþróttafélagið Höttur getur byggt upp aðstöðu til framtíðar. Svæðið yrði neðan við Egilsstaðakirkju og þar gætu risið knatthús og æfingasvæði fyrir fótbolta og jafnvel yrði hægt að koma fyrir lítilli skíðalyftu.

„Það voru vaskir einstaklingar sem drifu í því að fá þetta samþykkt hérna í bænum að þetta verða framtíðaríþróttasvæðið okkar. Og í rauninni viljum við bara að bæjaryfirvöld sjái sér hæg í því að setja sér langtímamarkmið um byggingu allskonar mannvirkja þarna,“ segir Lísa Leifsdóttir, formaður íþróttafélagsins Hattar.

<>

Hún segir að þarna yrði hjartað í starfsemi félagsins og allar deildir með sitt pláss.

„Eins og þetta er núna erum við svolítið dreifð og ekki hægt að byggja upp á þeim stöðum þar sem við erum. Þarna erum við líka í nálægð við skólann og núverandi íþróttahús og fimleikahús.

Og í nálægð við menntaskólann og meira að segja við eldri borgara. Þannig að það áttu svo margir að geta nýtt sér þetta ef þetta væri þarna á þessum bletti,“ segir Lísa.

Byrja á nýjum fótboltavelli

En hvaða mannvirki yrði byrjað á að byggja þarna?

„Við sjáum fyrir okkur að við myndum byrja á því að byggja nýjan fótboltavöll.“

Völl sem kemur þá í staðinn fyrir Fellavöll?

„Já, eða bara til að bæta við því eins og aðstaðan er þar þá er kannski ekki hægt að byggja við. Og það er ekki í boði að setja gervigras á Vilhjálmsvöll.

Þó að sá völlur sé mjög flottur þá er hann líka fyrir frjálsíþróttasvæðið okkar. Og þar er heldur ekki hægt að byggja við og setja aðra velli við hliðina og slíkt.“

Svæðið yrði því sannarlega með aðstöðu til framtíðar.

„Þannig að það væri bara fínt að nota þetta svæði og byggja svo upp í kringum það teljum við. Og það hefur verið góður hljómgrunnur fyrir því að stefna í þessa átt,“ segir Lísa Leifsdóttir formaður íþróttafélagsins Hattar.

Heimild: Ruv.is