Home Fréttir Í fréttum Samkeppni um byggingu aukahæðar ofan á lyftulaus hús

Samkeppni um byggingu aukahæðar ofan á lyftulaus hús

96
0
Mynd: RÚV
Efnt verður til samkeppni um byggingu hæðar ofan á nokkur lyftulaus fjölbýlishús í eigu Félagsbústaða.
Þar yrði einnig bætt við lyftu. Samkvæmt nýju hverfisskipulagi er heimilt að byggja inndregna hæð ofan á fjölbýlishús í Árbæjarhverfi og jafnframt verður hægt að bæta við lyftu.

Slíkt skipulag er einnig á lokametrunum fyrir Breiðholtshverfi. Frá þessu greinir í Morgunblaðinu í dag en áform eru uppi um heimild til slíkra framkvæmda í fleiri hverfum.

<>

Það gæti þýtt að alls yrðu byggðar 800 til 1200 nýjar íbúðir ef möguleikinn verður alls staðar nýttur.

Morgunblaðið hefur eftir Sigurði Helga Guðjónssyni, lögfræðingi og formanni Húseigendafélagsins, að það sé tálsýn ein nema þá í fjölbýlishúsum í eigu eins aðila á borð við Félagsbústaði sem einmitt standa fyrir áðurgreindri samkeppni ásamt Reykjavíkurborg og Arkitektafélagi Íslands.

Haft er eftir Ævari Harðarsyni arkitekt og deildarstjóra hjá Hverfisskipulagi Reykjavíkur að ætlunin sé að finna góðar skipulags- og tæknilausnir sem gætu vakið áhuga húsfélaga og byggingariðnaðarins. Ævar segir þó enga umsókn um slíka framkvæmd hafa borist.

Heimild: Ruv.is