Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Samningar undirritaðir um breikkun í Lækjarbotnum

Samningar undirritaðir um breikkun í Lækjarbotnum

167
0
Árni Snær Kristjánsson, frá Bjössa ehf., Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri og Árni Geir Eyþórsson, frá Jarðvali sf., að lokinni undirskrift síðdegis. VEGAGERÐIN/G. PÉTUR MATTHÍASSON

Samningar um tvöföldun Suðurlandsvegar á þriggja kílómetra kafla um Lögbergsbrekku í útjaðri Reykjavíkur voru undirritaðir hjá Vegagerðinni í dag.

<>

Verkinu seinkar um fjóra mánuði þar sem lengri tíma tók að fá framkvæmdaleyfi en búist var við.

Vegagerðin gekk til samninga við læstbjóðendur, Jarðval sf. og Bjössa ehf., í Kópavogi. Tilboð þeirra hljóðaði upp á 791 milljón króna, sem var 84,5 prósent af áætluðum verktakakostnaði.

Svona á Lækjarbotnabrekkan að líta út næsta haust, gangi áformin eftir.
VEGAGERÐIN

Tilboðin voru opnuð þann 13. júlí í sumar. Miðað við það hefðu verksamningar átt að geta verið klárir í ágústmánuði og verkið að geta hafist fyrir haustið.

Vegagerðin skammtaði enda nauman verktíma og átti verkinu að vera að fullu lokið 31. mars 2022.

„Verklok áttu að vera í mars en færast aftur til júlí,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, og segir skýringuna á seinkuninni þá að lengri tíma hafi tekið að fá framkvæmdaleyfi en Vegagerðin áætlaði. Það lúti mest að skipulagsmálum.

Vegurinn verður breikkaður milli Fossvalla og Gunnarhólma.
VEGAGERÐIN

Suðurlandsvegur næst Reykjavík er einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins og aðeins með eina akrein í hvora átt á tíu kílómetra löngum kafla milli Rauðavatns og Fossvalla, ef frá er talin klifurrein í Lögbergsbrekku. Þá eru akreinar á þessum kafla ekki aðskildar með vegriði né umferðareyju.

„Vinna á verkstað ætti að fara fljótlega af stað, mér skilst að það séu jafnvel komin tæki á staðinn,“ segir G. Pétur.

Heimild: Visir.is