Home Fréttir Í fréttum Tæplega 3 þúsund nýjar íbúðir til 2028

Tæplega 3 þúsund nýjar íbúðir til 2028

188
0
Mynd: vb.is

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir að sveitarfélagið verði því seint sakað um að búa til húsnæðisskort.

<>

Átímabilinu 2021-2028 stefnir Garðabær á að byggja hátt í 2.900 íbúðir en um verður að ræða fjölbýlishús, sérbýli, parhús og raðhús. Af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er Garðabær að byggja hlutfallslega mest af íbúðarhúsnæði á þessu ári.

„Það er gífurlega mikil uppbygging framundan í Garðabæ og verður seint sagt um okkur að við séum að búa til húsnæðisskort,” segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Gunnar segir sveitarfélagið hafa lagt sitt af mörkum í húsnæðismálum og gott betur, þar sem þegar hafi verið byggður fjöldi nýrra íbúða í Urriðaholti og á fleiri stöðum.

Auk þess sé nú verið að skipuleggja nokkur svæði þar sem framkvæmdir séu ýmist fyrirhugaðar eða þegar hafnar. „Það er búið að byggja um það bil 1.200 nýjar íbúðir í Urriðaholti og á næstu tveimur árum gera áætlanir ráð fyrir að 600 íbúðir til viðbótar bætist við í hverfinu.

Á Álftanesi höfum við nú tekið fyrstu skóflustungu að nýju hverfi sem mun rísa á miðsvæði Álftaness, í Breiðumýri. Þar munu verða byggðar um 250 íbúðir. Á dögunum auglýstum við svo 26 parhúsalóðir til sölu í Kumlamýri á Álftanesi,” segir Gunnar.

„Í Lyngási og Eskiási, rétt hjá þar sem gamla Héðinshúsið stóð, á að byggja um 276 íbúðir og eru framkvæmdir þar þegar hafnar.

Þessa stundina er einnig í gangi gatnagerð í Hnoðraholti þar sem gert er ráð fyrir um 219 íbúðum, en um verður að ræða sérbýli, raðhús og fjölbýli.

Lóðum á þessu svæði verður úthlutað á næsta ári. Í framhaldi af Hnoðraholtsframkvæmdum verður farið í uppbyggingu í Þorraholti við Reykjanesbrautina þar sem ætlunin er að byggja um 200 íbúðir, en vinna við deiliskipulag á þessu svæði er langt komin og má reikna með að gatnagerð hefjist þar fljótlega.

Fyrir nokkru síðan vorum við svo að auglýsa til sölu um 170 lóðir í Vetrarmýri, þar sem stendur til að reisa 664 íbúðir. Í Garðahrauni á síðan að bjóða út 25 einbýlishúsalóðir.

Loks má nefna samning sem gengið hefur verið frá við félagið Arnarland um uppbyggingu heilsubyggðar á norðanverðum Arnarneshálsi.

Þar er gert ráð fyrir 350 íbúðum fyrir 50 ára og eldri, auk þess sem heilsuklasi mun rísa á svæðinu. Deiliskipulagsvinna um það svæði er þegar hafin,” bætir Gunnar við.

Hægt er að glöggva sig nánar á uppbyggingunni sem Gunnar rekur hér að ofan á yfirlitsmynd af fyrirhugaðri uppbyggingu í Garðabæ á tímabilinu 2021-2028.

„Af ofantöldu má sjá að það er mjög mikið í gangi hjá Garðabæ og er uppbyggingin vel dreifð um bæjarfélagið.

Á sumum svæðum er verið að þétta byggð meðan annars staðar er verið að brjóta nýtt land. Við höfum lagt áherslu á að þétta þar sem hægt er að þétta en einnig að brjóta nýtt land undir ný íbúðahverfi,” segir Gunnar.

Heimild: Vb.is