Rio Tinto í Straumsvík á í viðræðum við Hafnarfjarðarbæ vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi bæjarins í tengslum við tvöföldun Reykjanesbrautar á núverandi vegstæði, frá Krýsuvíkurvegi að mörkum Sveitarfélagsins Voga.
Hefur fyrirtækið lagst hart gegn hugmyndum sem miða að því að komið verði fyrir nýju hringtorgi sem sker inn á vesturenda núverandi athafnasvæðis þess.
Samkvæmt tillögum Vegagerðarinnar á hringtorgið að tengjast undirgöngum sem í dag miðla umferð til og frá Reykjanesbraut af athafnasvæði Rio Tinto.
Líkt og Rio Tinto hefur bent á voru undirgöng þessi hugsuð til bráðabirgða og telur fyrirtækið að þau, ásamt nýju hringtorgi og römpum, muni illa ráða við mikla þungaumferð sem áætlað er að fari um þennan veg á komandi árum.
Í athugasemdum sem fyrirtækið hefur komið skriflega á framfæri við Hafnarfjarðarbæ og Skipulagsstofnun er áhyggjum lýst af umferðaröryggi starfsfólks fyrirtækisins og annarra vegfarenda í Straumsvík.
Þá telur fyrirtækið augljóslega, af athugasemdunum að dæma, að það svæði sem færi undir fyrrnefnt hringtorg geti skipt sköpum í tengslum við framtíðaruppbyggingu starfsemi álversins.
„Mikil eftirspurn er eftir áli og verð hátt, sem kann að gera breytingar á skála 3 fýsilegar.
Núverandi hönnun á mislægum gatnamótum við ISAL rýrir möguleika fyrirtækisins til lengingar á kerskála 3,“ segir í fyrrnefndum athugasemdum fyrirtækisins.
Heimild: Mbl.is