Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við nýja framleiðslulínu hjá Norðuráli á Grundartanga

Framkvæmdir við nýja framleiðslulínu hjá Norðuráli á Grundartanga

175
0
Mynd: Nordural.is

Norðurál hefur hafið byggingu á nýrri framleiðslulínu í steypuskála álversins á Grundartanga.  Um fjörutíu ný framtíðarstörf verða til þegar nýja framleiðslulínan verður gangsett og útflutningstekjur Norðuráls munu aukast um 3-4 milljarða á ári.

<>

Umhverfisvænni og verðmætari framleiðsla
Ný framleiðslulína í álveri Norðuráls mun auka verðmæti framleiðslunnar án þess að meira verði framleitt af áli.

Verið er að færa virðisaukandi framleiðslu, sem hingað til hefur farið fram erlendis, til Íslands. Með því að nota endurnýjanlega raforku verður kolefnisspor framleiðslunnar mun minna en ef hún færi fram erlendis.

Framkvæmdin
Framkvæmdir við byggingu, sem hýsa mun nýju framleiðslulínuna, eru hafnar og er gert ráð fyrir að línan verði gangsett í byrjun árs 2024.

Um er að ræða fjárfestingu upp á um 16 milljarða króna og munu um 80-90 störf skapast á framkvæmdatíma að ótöldum afleiddum störfum. Um fjörutíu ný varanleg störf hjá Norðuráli verða til þegar framleiðsla hefst.

Tímalína framkvæmda
Framkvæmdir á athafnasvæði eru þegar hafnar, en jarðvinna hefst af alvöru í upphafi næsta árs. Gert er ráð fyrir því að ferlið gangi hratt fyrir sig og að uppsetningu búnaðar verði lokið um mitt ár 2023 og að rekstur hefjist að loknum prófunum í upphafi árs 2024

Mynd: Nordural.is

Álstangir
Í nýrri framleiðslulínu verða framleiddar álstangir (e.billets). Stangirnar eru sívalningar úr áli sem mótaðir eru með þrýstimótun.

Álstangir eru eftirsóttar af evrópskum viðskiptavinum, en ál er lykilefni við framleiðslu t.d. rafbíla, sólarrafhlaða, flugvéla og umhverfisvænna bygginga. Með framleiðslu álstanga er Norðurál því að færa sig nær viðskiptavinum sínum og jafnframt færa verðmætaaukninguna til Íslands.

Minna kolefnisspor
Norðurál notar 100% endurnýjanlega raforku við alla framleiðslu, en hingað til hafa álhleifar Norðuráls verið bræddir í stangir í Evrópu, þar sem notuð er raforka með stærra kolefnisspori.

Engin aukalosun verður við framleiðslu álstanga hjá Norðuráli og orkuþörf verður mun minni en ef þær væru steyptar erlendis. Áætlaður orkusparnaður eru um 40%. Vegna þess hve mikil jákvæð umhverfisáhrif eru af verkefninu hefur það fengið græna fjármögnun hjá Arion banka.

 

Í stuttu máli
Þegar framleiðslan hefst verður langstærstur hluti þess áls sem Norðurál framleiðir virðisaukandi vara, álstangir og álblöndur.

  • Kostnaður: 16 milljarðar króna
  • Störf við framkvæmdir: 80-90 í tvö ár
  • Fjöldi nýrra starfa eftir framkvæmdir: 40
  • Aukning útflutningstekna: 3-4 milljarðar króna á ári
  • Aukin raforkunotkun: 10 MW
  • Bætt orkunýting: 40%

Heimild: Nordural.is