Hópur Akureyringa andæfir fyrirhuguðum fjölbýlishúsum á brekkubrún, óttast burðarþol jarðvegar og skriðuhættu. Formaður skipulagsráðs segir ekkert að óttast.
Hópur Akureyringa reynir nú að koma í veg fyrir að nokkur fjölbýlishús við Tónatröð verði að veruleika. Stofnuð hefur verið Facebook-grúppa, Björgum spítalabrekkunni – björgum innbænum, þar sem varað er við hættu sem kunni að skapast.
Hildur Friðriksdóttir, íbúi á Spítalavegi og einn stofnandi Facebook-hópsins, segir að tillagan um húsin sé skipulagsslys sem gangi gegn nýsamþykktu aðalskipulagi bæjarins.
Farið hafi verið á svig við úthlutunarreglur bæjarins, úthlutað án auglýsingar og formaður skipulagsráðs hafi hringt í verktakann, SS-byggi og boðið upp í dans.
Alvarlegt sé vegna minnisblaðs vísindamanna sem Fréttablaðið fjallaði nýverið um og snýr að aukinni skriðuhættu, að fjölbýlishúsin eigi að rísa á brekkubrúninni.
Við blasi að meðalhiti hafi hækkað undangengin ár og úrkoma aukist. Þessar veðrabreytingar þýði að hætta á skriðuföllum aukist, sem geri þessi áform sérlega varhugaverð.
„Þess vegna er ástæða til að skoða þessi svæði sérstaklega. Það fer um mann, því þarna er um að ræða mikinn halla,“ segir Hildur.„Þolir brekkubrúnin þennan þunga, er önnur spurning. Þetta þarf að skoða mjög rækilega,“ bætir Hildur við.
Íbúar á svæðinu þekki það nú þegar að jarðvegurinn sé á hreyfingu.„Við þurfum oft að grípa til aðgerða til að stoppa brekkuna með steyptum einingum eða hleðslum.
Maður sér líka á Spítalavegi að þar eru víða sprungur vegna þess að jarðvegurinn er á hreyfingu. Þess vegna eru þungatakmarkanir.“
Spurð hvort andófið snúist um sérhagsmuni Hildar, sem íbúa í grennd við fjölbýlishúsin fyrirhuguðu, aukna umferð og rask í hverfinu, segir hún að það séu hagsmunir allra bæjarbúa að berjast gegn áformunum.
„Akureyrarbrekkan er ásýnd bæjarins og allt sem stendur í þessari brekku verður mjög áberandi. Að ætla að fara að planta blokkum þarna í brekkuna gjörbreytir ásýnd bæjarins. Þess vegna eru það ekki okkar einkahagsmunir að berjast gegn þessu, heldur hagsmunir allra bæjarbúa.“
Fréttablaðið fjallaði um áformin fyrir skemmstu. Fram kom að formanni skipulagsráðs, Þórhalli Jónssyni, líst vel á hugmyndina. Spurður út í gagnrýni Hildar nú og hvort ástæða sé til að vænta þess að fjölbýlishúsin hrynji út í sjó ef þau verða byggð, segir Þórhallur ekkert að óttast.
„Það þarf að gera jarðvegsrannsóknir á þessu svæði til að sjá hvort jarðvegurinn ber byggingarnar. Það verður ekkert framkvæmt fyrr en niðurstaða liggur fyrir.“
Þórhallur vísar til bókunar ráðsins um að umferð, burðargeta brekkunnar og aðkoma, verði rannsökuð mjög vel. Við hönnun nýrra hverfa hafi orðið umbætur í að yfirborðsvatn eigi greiða leið.„Það er engin ástæða til að mála skrattann á vegginn fyrir fram.“
Hvað aðra gagnrýni Hildar varðar, meinta spillingu, segir Þórhallur að búið sé að svara því. Hann vísi slíkum ásökunum til föðurhúsanna.
Heimild: Frettabladid.is