Home Fréttir Í fréttum Hryggjar­stykkið í upp­byggingunni

Hryggjar­stykkið í upp­byggingunni

212
0
Halldór Eyjólfsson, þróunarstjóri Klasa, og Ingvi Jónasson framkvæmdastjóri. Mynd: Eyþór Árnason

Fasteignaþróunarfélagið Klasi hyggst hefja uppbyggingu á Borgarhöfða snemma á næsta ári. Gangi áætlanir eftir gætu fyrstu íbúar flutt inn síðla árs 2024 en áætlað er að verkefninu ljúki á sex til tíu árum.

<>

Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, og Halldór Eyjólfsson, þróunarstjóri félagsins, segja verkefnið hafa verið lengi í undirbúningi, líkt og dæmigert sé fyrir stór fasteignaþróunarverkefni.

„Við hófum kaup á svæðinu fyrir 16 eða 17 árum. Verkefni Klasa á Borgarhöfða snýr að því að byggja heimili um 3.000 íbúa og vinnustað fyrir allt að 1.500 starfsmenn.

Þarna hefur verið iðnaður áratugum saman, sem var eðlileg ákvörðun á sínum tíma þegar svæðið stóð utan íbúabyggðar. Frá þeim tíma hefur borgin þróast þannig að Borgarhöfði og Ártúnshöfði eru orðin miðlæg svæði sem ekki er lengur réttlætanlegt að leggja undir iðnað.

Það er orðið tímabært að skila þessu fallega svæði aftur til íbúanna. Í nýja aðalskipulaginu kemur bersýnilega í ljós að þessi nýi borgarhluti sem Borgarhöfði tilheyrir verður hryggjarstykkið í uppbyggingu Reykjavíkur næstu tíu árin,” segir Halldór.

Á svæðinu eru iðnaðarfyrirtæki sem munu flytja starfsemi sína og segja þeir Halldór og Ingvi verkefnið unnið í góðu samstarfi við þau.

„Við höfum undirbúið flutninga í samstarfi við leigutaka okkar í 10 ár og þeir hafa allir fundið sér nýjan stað. Í byrjun næsta árs verða þeir nánast allir fluttir.

Fyrirtækin átta sig á því að þetta er bara eðlileg og óumflýjanleg þróun borgarinnar,” segir Halldór og Ingvi bætir við: „Þessi fyrirtæki eru að fjárfesta mikið í sinni starfsemi og horfa eðlilega á hversu lengi þau geta verið á hverjum stað þegar kemur t.d. að endurfjárfestingum í tækjum eða húsnæði.

Með tímanum þá getur nýr staður verið nær þeim markaði sem fyrirtækin starfa á og staðsetningin mætir kröfum nýrra tíma.”

Styðji við bílléttan lífsstíl

Halldór segir að í nýju aðalskipulagi sé settur nýr tónn í hvers konar borg verði byggð upp á næstu árum. „Bæði út frá umhverfismálum og því borgarmannlífi sem við viljum ná fram, og ekki síður til að tengja betur við austurborgina.

Við trúum því að uppbygging á Borgarhöfða muni til framtíðar styrkja og styðja við úthverfin svo sem Grafarvog og Úlfarsárdal.”

Hann bendir á að mikil umbreyting hafi orðið á því hvernig við hugsum bæði rými og samgöngumál til framtíðar og hið nýja hverfi endurspeglar það.

„Þetta verður þéttara en eldri hverfi hafa verið, en um leið er gætt að því að mannlífið sé alltaf í forgangi. Þetta verður svokallað 15 mínútna hverfi, þar sem íbúar hafa alla nærþjónustu og jafnvel vinnustaðinn í göngufæri.

Hlutfall umhverfisvænna samgöngumáta og ferða verður þannig miklu hærra en við þekkjum í eldri úthverfum. Oft er talað um bíllausan lífsstíl en við tölum meira um bílléttan lífsstíl vegna þess að þessar breytingar gerast í skrefum.

Þarna geta þeir sem vilja ekki vera með bíl búið miðsvæðis við góðar almenningssamgöngur á sama tíma og þeir sem vilja eiga bíl geta fækkað ferðum sínum og þannig notað hann minna.”

Heimild:  Vb.is