Home Fréttir Í fréttum Áætlað að Fjarðabyggð fjárfesti um 1,5 milljarði í hafnarmannvirki á næstu árum

Áætlað að Fjarðabyggð fjárfesti um 1,5 milljarði í hafnarmannvirki á næstu árum

113
0
Mynd: Austurfrett.is

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar Fjarðabyggðar í hafnarmannvirkjum sveitarfélagsins verði um einn og hálfur milljarður til ársins 2025 ef marka má nýja fjárhagsáætlun sem nú er til umfjöllunar hjá bæjarstjórn Fjarðabyggðar.

<>

„Það eru bæði aukin umsvif, aukinn afli og skip fara stækkandi. Hafnarsjóður Fjarðabyggðar er annar stærsti hafnarsjóður á landinu á eftir Faxaflóahöfnum og umsvifin því töluverð.

Við erum með stærstu fiskihöfn landsins sem er á Norðfirði þar sem mestur afli kemur á land.

Þá hefur laxeldi stækkað og það er mjög mikið líf í kringum hafnirnar og sjávarútveginn í Fjarðabyggð og við þurfum að svara því og reyna þjónusta fyrirtækin eins vel og við getum.

Fjarðabyggð er mikil miðstöð sjávarútvegs á Íslandi,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Um þessar mundir fara fram umræður um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árin 2022 til 2025. Fyrri umræðu er lokið í bæjarstjórn en síðari umræða fer fram á næstunni.

Fjárhagsáætluninni fylgir fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins en þar kemur fram að áætlaðar fjárfestingar fyrir næsta ár verði um 921 milljón króna og fyrir árin 2022 til 2025 alls 3,3 milljarðar króna.

Hér verður farið yfir hvaða framkvæmdir sveitarfélagsins eru áætlaðar þær kostnaðarsömustu næstu árin.

Leikskólinn Dalborg
Stefnt er að því að hefja framkvæmdir á viðbyggingu við leikskólann Dalborg á Eskifirði á næsta ári og á fjárfestingaráætlun Fjarðabyggðar er gert ráð fyrir að 143 milljónir fari í stækkun og breytingar á leikskólanum árið 2022 og 40 milljónir árið 2023.

Gert er ráð fyrir að tvær leikskóladeildir bætist við Dalborg með viðbyggingunni ásamt starfsmannaaðstöðu, sérkennslurými, skrifstofum stjórnenda og fjölnotasal.

Viðbyggingin verður á tveimur hæðum og verður sú neðri 468,5 m2 og efri 37,3 m2 en á efri hæðinni verður aðeins tæknirými fyrir loftræstikerfi og slíkt.

„Við höfum getað tekið á móti börnum þar sem við erum að reka leikskóladeild í grunnskólanum á Eskifirði og það hefur gengið vel. Deildirnar á Dalborg eru litlar og við viljum bæta úr því og það þarf lítið að gerast svo hann fyllist eins og staða mála er nú.

Með viðbyggingunni getum við líka tekið deildina úr grunnskólanum og rekið leikskólann allan á einum stað. Þá hefur vantað töluvert upp á að bæta starfsmannaaðstöðu sem er ekki nógu góð núna,“ segir Jón Björn um fyrirhugaða framkvæmd á Dalborg en í framhaldi af stækkuninni þarf að fara í breytingar á eldri byggingunni.

Nýverið var verkið boðið út en ekkert tilboð barst í það og segir Jón Björn það vera mikil vonbrigði. „Auðvitað erum við glöð að það sé mikil þensla á svæðinu og að það sé mikið að gera hjá iðnaðarmönnum en það er ekki gott mál að fá ekki tilboð í svona verk.

Við erum því að skoða þetta verkefni núna og hvernig við vinnum með það. Hvort við förum með það í annað útboð eða hvort við áfangaskiptum því meira. Það er til skoðunar núna hjá okkur,“ segir Jón Björn.

Eskifjarðarhöfn
Gert er ráð fyrir að 355 milljónir verði settar í framkvæmdir við Eskifjarðarhöfn á næsta ári og 405 milljónir árið 2024.

„Eitt stærsta verkefni sveitarfélagsins núna er að ljúka við gerð bryggjunnar við fiskiðjuver og frystigeymslu Eskju á næsta ári. Það verkefni er að fara í útboð hvað úr hverju,“ segir Jón Björn en unnið hefur verið við bryggjuna í ár sem og í fyrra.

Fjármagnið sem áætlað er fyrir Eskifjarðarhöfn árið 2024 snýr að gömlu höfninni við miðbæ Eskifjarðar.

„Þar verður farið í endurnýjun á stáli og við horfum til þess að gera breytingar á henni til að auðvelda aðkomu að annarri hafnsækinni starfsemi á því svæði.

Hlutverk hennar er annað en þegar hún var byggð þar sem hún var hugsuð fyrir vöruflutninga en þeir hafa færst inn á Mjóeyri við Reyðarfjörð.“

Norðfjarðarhöfn
Árið 2023 er áætlað að 405 milljónir fari í framkvæmdir við Norðfjarðarhöfn.

„Við erum byrjuð að vinna hönnun og úttekt sem verður unnin á næsta ári auk þess að undirbúningur hefst við endurbætur á bryggjunni við fiskimjölsverksmiðjuna á Norðfirði. Þar þarf að fara í endurnýjun á stálþili og hugsanlega gera einhverjar breytingar,“ segir Jón Björn.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að 80 milljónum verði varið í framkvæmdir við vatnsveitu Fjarðabyggðar og tengist sú fjárfesting að langstærstum hluta starfseminni við Norðfjarðarhöfn.

„Við þurfum að svera vatnslögnina sem kemur frá Fannardal. Lögnina sem er við Ingunnarveitu, sem er við enda flugvallarins, út í dæluhúsin sem eru á hafnarsvæðinu til að geta afhent meira vatnsmagn á hafnarsvæðið.

Það þurfum við að gera í tengslum við uppbyggingu Síldarvinnslunnar á nýju löndunarhúsi fyrir loðnu og annað.“

Mjóeyrarhöfn
Árið 2025 er áætlað að framkvæmdir hefjist við Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði og þá gert ráð fyrir fjárfestingu upp á 405 milljónir króna.

„Það verkefni mun taka á sig skýrari mynd í vetur og á næsta ári. Það mun auðvitað ráðast á verkefnum eins og græna orkugarðinum hvert við erum að stefna þar, hvort við þurfum mögulega að auka í fjárfestingar á höfninni eða ekki.

Óháð græna orkugarðinum þá höfum við vitað lengi að við þurfum að stækka hana.

Skipin fara auðvitað stækkandi, umsvif flutninga um hana hefur aukist og við erum að horfa til þess að geta svarað því betur í framtíðinni,“ segir Jón Björn og bætir við að ef þörf eykst enn frekar á næstunni gæti komið til þess að bregðast þurfi við því og framkvæmdum flýtt.

Heimild: Austurfrett.is