Home Fréttir Í fréttum Opnun á nýrri mannvirkjaskrá

Opnun á nýrri mannvirkjaskrá

325
0
Mynd frá hægri: Sigurður Ingi Jóhannsson, Ásmundur Einar Daðason, Karlotta Halldórsdóttir og Þorsteinn Arnalds Mynd: HMS.is

Síðastliðinn föstudag var ný mannvirkjaskrá formlega tekin í notkun. Vefurinn mannvirkjaskra.is veitir almenningi og hagsmunaaðilum aðgang að nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum um mannvirki á Íslandi.

<>

Það voru þeir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem hleyptu heimasíðu mannvirkjaskrár formlega af stokkunum með því að fletta fyrstir uppi í skránni en hópur byggingarfulltrúa og annarra starfsmanna í mannvirkjageiranum fylgdist með.

Mannvirkjaskrá inniheldur nákvæmar upplýsingar um mannvirki á Íslandi og verður t.d. hægt að skoða fjölda íbúða í byggingu eftir byggingarstigi.

Mannvirkjaskráin mun auðvelda yfirsýn á húsnæðismarkaði og gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að bæta áætlanagerð og koma í veg fyrir miklar framboðssveiflur með tilheyrandi verðhækkunum húsnæðis og áhrifum á verðbólgu.

Þá verður í framtíðarútgáfum mannvirkjaskrár auðveldara fyrir almenning að nálgast upplýsingar sem máli skipta um það sem gerst hefur á líftíma bygginga, eins og breytingar á húsum og viðhaldssögu. Þetta mun m.a. styrkja stöðu kaupenda í fasteignaviðskiptum.

Mannvirkjaskrá er einnig mikilvægt stjórntæki á sviði eftirlits með mannvirkjagerð.

Með henni verður stjórnsýsla gagnsærri og eftirlit auðveldara sem mun að mati sérfræðinga stuðla að meiri gæðum í mannvirkjagerð og þar af leiðandi gera mannvirki á Íslandi öruggari gagnvart hvers kyns tjóni, bruna eða öðru slíku.

Enn er verið að bíða eftir að öll sveitarfélögin skili inn gögnum í mannvirkjaskránna en þau sveitarfélög sem eru komin inn eru: Reykjavík, Garðabær, Hafnarfjörður, Árborg, Akureyri, Akranes og Reykjanesbær.

Stutt kynningarmyndband um hvaða gögn er að finna í mannvirkjaskránni má finna hér:

Hægt er að fara inn á vefinn á eftirfarandi vefslóð: www.mannvirkjaskra.is

Heimild: HMS.is