Home Fréttir Í fréttum Dagur segir næstu tíu ár verða áratug Reykjavíkur

Dagur segir næstu tíu ár verða áratug Reykjavíkur

84
0
Svona mun hluti hins nýja Borgarhöfðahverfis líta út, þar sem nú er alls kyns iðnaðarhúsnæði á Ártúnshöfða. KLASI

Næstu tíu ár verða áratugur Reykjavíkur í uppbyggingu íbúðarhúsnæði að sögn borgarstjóra. Nægt framboð sé af lóðum og þúsundir íbúða verði byggðar á næstu mánuðum og árum.

<>

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar nokkurra aðila sem eru að þróa ný hverfi í borginni kynntu stöðu mála og framtíðaráform í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík í Ráðhúsinu í morgun.

„Það er mikið í pípunum í Reykjavík og við erum að fara út með metfjölda lóða núna á næstu árum og samþykkja stórar deiliskipulagsáætlanir fyrir ný hverfi.

Þannig að næsti áratugur getur orðið áratugur Reykjavíkur í uppbyggingu. Með grænum áherslum inn á við þar sem við sjáum gríðarlega skemmtilega borg í þróun,“ segir Dagur.

Iðnaðarhverfið á Ártúnshöfða mun á næstu örfáum árum víkja fyrir blandaðri byggð. En um átta þúsund íbúðir munu rísa þar og í Elliðaárdal sem Klasi er að skipuleggja.
KLASI

Á fundinum voru áætlanir um uppbyggingu í Gufunesi, á Ártúnshöfða, í Skerjafirði og á Héðinsreit kynntar sérstaklega. Þar mun mikill fjöldi íbúða rísa á næstu árum ásamt smærri verkefnum víða um borgina.

„Það eru tvö þúsund og sjö hundruð þegar í byggingu. Það eru þrjú þúsund til viðbótar í samþykktu deiliskipulagi.

Síðan erum við að fara út með þúsund lóðir á næsta ári auk þess að samþiggja ný hverfi. Þannig að þetta er mjög umfangsmikið magn og ég treysti mér til að fullyrða að það muni ekki standa á Reykjavík,“ segir borgarstjóri.

Svona lítur íbúðabyggðin út sem Spilda er að skipuleggja í Gufunesi.
SPILDA

Auðvitað taki tíma að skipuleggja og hanna á nýjustu byggingasvæðunum. Hlutur lánastofnana sé líka mikilvægur því verktakar, óhagnaðardrifin byggingarfélög og aðrir aðilar þurfi að fjármagna verkefnin.

„En það eru allar forsendur til þess að það geti byggst mjög hratt og mikið upp í Reykjavík til að mæta þeirri eftirspurn sem er núna og á næstu árum,“ segir Dagur B. Eggertsson.

Heimild: Visir.is