Framkvæmdir við nýjan sex deilda leikskóla við Kleppsveg 150-152 eru hafnar. Stefnt er að því að klára fyrsta áfangann fyrir næsta sumar og lokaáfangann fyrir haustið.
Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Á lóðinni standa tvö hús sem verða nýtt eins og kostur er. Þá verður tengibygging byggð á milli þeirra sem verður vottuð samkvæmt alþjóðlega umhverfisvottunarkerfinu BREEAM, en því er ætlað að greina og draga úr umhverfisáhrifum bygginga.
Er einnig lögð áhersla á heilsu og vellíðan notenda.

Endurnýja á alla göngustíga
Framkvæmdirnar verða af ýmsum toga en í tilkynningunni kemur fram að:
- Gerðar verða endurbætur á lóð og húsnæði sem og aðkomu að skólanum sem verður í höndum Þarfaþings ehf.
- Útbúið verður opið leiksvæði sem verður afgirt til notkunar fyrir leikskólabörn og íbúa hverfisins utan þjónustutíma.
- Endurnýja á alla göngustíga auk þess að leggja nýja til að tryggja gott aðgengi fyrir leikskólabörn, forráðamenn og íbúa að svæðinu.
- Framkvæmd hefur verið umferðaröryggisrýni til að tryggja öryggi og aðgengi gangandi, hjólandi og akandi að svæðinu.
- Til að tryggja öryggi vegfarenda, reynist nauðsynlegt að loka gangstígum í kringum framkvæmdasvæðið en vísað verður á hjáleiðir.
Lóðin á þó ekki eingöngu að nýtast fyrir sjálfan leikskólann heldur er hún einnig hugsuð sem hverfisgarður fyrir íbúana utan þjónustutíma.

Áður hefur komið fram að uppbyggingin muni kosta 927 milljónir, en það var verktakafyrirtækið Þarfaþing sem átti lægsta boð í framkvæmdina.
Reykjavíkurborg keypti fasteignirnar á Kleppsvegi 150 og Kleppsvegi 152 á samtals rúmlega 642 milljónir króna.
Hvort hús um sig er um eitt þúsund fermetrar. Breyta átti húsnæðinu í leikskóla fyrir 120-130 börn.
Þarna var var áður að finna margvíslega starfsemi, svo sem artkitektastofuna Arkís og kynlífstækjabúðina Adam og Evu.
Í frumkostnaðaráætlun borgaryfirvalda var gert ráð fyrir að það myndi kosta 623 milljónir að breyta húsnæðinu í leikskóla, en sem fyrr segir reyndist sú upphæð nokkuð hærra og er heildarkostnaður við kaup og endurgerð nú áætlaður um 1.570 milljónir.
Heimild: Mbl.is