Lögreglan á Vesturlandi hefur nú til rannsóknar vegaframkvæmdir í Skorradal í Borgarfirði, þar sem þykir óvarlega hafa verið staðið að vegaframkvæmdum.
Seint að kvöldi síðastliðinn fimmtudag var sprengdur upp jarðveg fyrir efnistöku, með þeim afleiðingum að möl og stórgrýti lokaði vegi um Skorradal.
Efnið var sótt í klappir í Fossabrekku, milli bæjanna Syðstu-Fossa og Hálsa.
Skessuhorn greinir frá því að fólki á svæðinu hafi verið mjög brugðið vegna sprenginganna og vegfarendur hafi ekið utan í grjót á veginum.
Héldu að stíflan hefði brostið
Í viðtali við Skessuhorn sögðu nágrannar hafa haldið að stífla Andakílsár hefði brostið, svo mikill hávaði var að sprengingunni. Vegurinn hefur nú verið ruddur og Vegagerðin sett upp viðeigandi merkingar.
Lögreglan á Vesturlandi gat ekki gefið nánari upplýsingar um málið að svo stöddu. Verktaki við framkvæmdirnar er sagður vera Þróttur, en undirverktaki við eftirvinnslu sé Borgarvirki.
Heimild: Ruv.is