Félagsstofnun stúdenta áformar frekari uppbyggingu í Skuggahverfi í Reykjavík.
Til stendur að færa til hús og rífa og byggja ný hús með 122 einstaklingsíbúðum og herbergjum.
Samtímis verður bílastæðum fækkað og benda borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á það í bókun að minna en eitt bílastæði verði á hverjar fimm nýjar íbúðir.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu sem kom út í gær.
Félagsstofnun stúdenta rekur nú þegar 102 stúdentaíbúðir á reitnum undir heitinu Skuggagarðar.
Fyrsta húsið var tekið í notkun árið 2006. Þetta eru stúdíóíbúðir ætlaðar einstaklingum.
Á fundi skipulags- og samgönguráðs borgarinnar 29. september sl. var lögð fram umsókn Félagsstofnunar stúdenta dags 1. júní 2021, varðandi breytingu á deiliskipulagi reits vegna lóðanna nr. 42, 44 og 46 við Lindargötu og lóða nr. 10 og 12 við Vatnsstíg.
Í breytingunni felst að heimilt verði að fjarlægja hús á lóð nr. 10 við Vatnsstíg og 44 við Lindargötu, breyta lóðamörkum lóðanna nr. 12 og 12A við Vatnsstíg, sameina lóðina nr. 44 við Lindargötu við lóðirnar nr. 40, 42 og 46 við Lindargötu.
Ennfremur að byggja nýtt þriggja hæða hús á lóð nr. 44 við Lindargötu, reisa tveggja hæða hús ásamt risi á lóðunum nr. 12 og 12A við Vatnsstíg, fækka bílastæðum á lóð og gera sameiginlegt útisvæði fyrir stúdenta vestan við jarðhæð lóðar nr. 44 við Lindargötu.
Loks að flytja núverandi byggingu frá lóð nr. 12 við Vatnsstíg á nýja lóð nr. 10 við Vatnsstíg, samkvæmt uppdrætti Arkþing/Nordic.
Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. Borgarráð hefur staðfest þess afgreiðslu.
Þar bókuðu fulltrúar meirihlutaflokkanna að skipulagið sé unnið í samráði við Minjastofnun.
Uppbyggingin verði hjá lykilás borgarlínu og bjóði upp á grænar tengingar við háskólasvæðið í Vatnsmýri.
Heimild: Mbl.is