Home Fréttir Í fréttum Ný heilsugæsla leysir íbúðarhús af hólmi

Ný heilsugæsla leysir íbúðarhús af hólmi

79
0
Núverandi húsnæði heilsugæslunnar í Reykjahlíð er algjörlega óviðunandi, segir hjúkrunarfræðingur sem þar starfar. Stutt er í að nýtt húsnæði verði tekið í notkun en komum hefur fjölgað verulega samhliða fjölgun ferðamanna.

Lengi hefur verið áformað að byggja nýja heilsugæslu í Reykjahlíð en það var ekki fyrr en á þessu ári sem ákvörðun var tekin um að hefjast handa. Nýja húsið verður timburhús, reist á steyptum grunni og á besta stað í þorpinu. Þörfin fyrir nýtt hús hefur aukist mjög á síðustu árum, með vaxandi ferðamannastraumi, og var mikil fyrir enda gamla húsnæðið ekki ákjósanlegt fyrir þessa starfsemi.

<>

Fyrsta skóflustunga var tekin í sumar en heilsugæslan hefur verið í húsi, sem er í raun íbúðarhúsnæði. Það veður því mikil breyting fyrir Mývetninga þegar nýtt hús verður tekið í notkun. „Í grunninn er þetta íbúðarhús tekið í notkun árið 1984 eða 1985, til bráðabirgða og eftir að það var tekið í notkun myndaðist sprunga undir húsinu, það er hiti í kjallaranum og á allan hátt er þetta algjörlega ófullnægjandi sem heilsugæsla, alveg sama á hvernig það er litið,“ segir Dagbjört Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur.

Sem fyrr segir hefur þeim fjölgað sem sækja þjónustu þangað, og margir þeirra eru ferðamenn.

„Það er ekki bara yfir sumartímann, það er orðið allan ársins hring og töluvert um slys bara af því hvernig náttúran er. Fólk dettur í hrauni, lendir í bruna og öllu mögulega og þessu önnum við eftir bestu getu,“ segir Dagbjört og kveður að nýja hússins sé beðið með mikilli eftirvæntingu. „Og við verðum örugglega öll glaðari sem vinnum hérna, og allir sem til okkar koma.“

Heimild: Ruv.is