Home Fréttir Í fréttum Hátt í þúsund íbúðir í nýju hverfi á Akureyri

Hátt í þúsund íbúðir í nýju hverfi á Akureyri

78
0
Mynd: Akureyri.is

Akureyrarbær kynnir drög að deiliskipulagi fyrir nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar, fyrir ofan Síðuhverfi í framhaldi af Giljahverfi.

<>

Markmiðið er að leggja grunn að hverfi með fjölbreyttum íbúðagerðum og grænum svæðum sem verður aðlaðandi búsetukostur.

Í stuttu máli:

  • Allt að 970 íbúðir á svæðinu og má því ætla að íbúafjöldi verði á bilinu 1.900-2.300.
  • Gert er ráð fyrir að íbúðir í fjölbýli verði um 77-80% samanborið við 20-23% í sérbýli sem þýðir að álíka mikið landsvæði fer undir fjölbýli og sérbýli.
  • Stefnt er að því að hefja uppbyggingu úr suðri vegna nálægðar við Síðuskóla þar sem svigrúm er til að fjölga nemendum.

Hér er hægt að skoða tillöguna nánar:

Myndræn kynningargögn

Uppdráttur

Grænt og vistvænt hverfi

Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi er gert ráð fyrir að safngata liggi í gegnum íbúðasvæðið en húsagötur verði í flestum tilvikum botngötur til að hægja á umferð.

Lagt er til þétt net göngu- og hjólastíga um hverfið og að meginleiðir verði ekki meðfram safngötu til að skapa næði frá bílaumferð.

Mikil áhersla er lögð á gott aðgengi að grænum svæðum og er gert ráð fyrir torgsvæði, leiksvæðum, sleðabrekku og matjurtagarði.

Sjálfbær þróun er lykilatriði samkvæmt tillögunni og birtist meðal annars í blágrænum ofanvatnslausnum sem stefnt er að því að nota í hverfinu.

Við enda botngata er gert ráð fyrir snjósöfnunarsvæðum sem tengjast ofanvatnslausnum svo ekki þurfi að aka snjó burt eftir mokstur. Þá er lagt til að kvöð verði sett á lóðir fjölbýlishúsa um trjágróður.

Gagnlegar hugmyndir frá íbúum

Lýsing á skipulagsverkefninu var kynnt í maí og þá var jafnframt óskað eftir hugmyndum frá íbúum í gegnum samráðsvettvanginn Okkar Akureyrarbæ.

Fjölmargar áhugaverðar og gagnlegar hugmyndir bárust sem voru hafðar til hliðsjónar við skipulagsvinnuna og rötuðu nokkrar þeirra með einum eða öðrum hætti inn í drög að deiliskipulagi.

Sem dæmi má nefna hugmyndir um ofanvatnslausnir, aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum, botngötur og snjósöfnunarsvæði, áherslu á gott stígakerfi, tillögu um matjurtagarða fyrir íbúa og að jarðefni sem falli til við framkvæmdir verði notað til að búa til útivistarsvæði.

Helstu tillögur sem bárust og viðbrögð við þeim er að finna í kynningargögnum deiliskipulagsins.

Athygli er vakin á því að skipulagssvæðið var í upphafi kynnt undir vinnuheitinu Kollugerðishagi en ákveðið hefur verið að svæðið fái annað nafn þegar fram líða stundir.

Næstu skref

Áhersla er lögð á að kynna vel drög að deiliskipulagi.

Hér er vefsvæði með öllum helstu upplýsingum um skipulagsvinnuna.

Opið hús. Þriðjudaginn 12. október kl. 16-19 verður tillagan sett fram til kynningar á myndrænan og aðgengilegan hátt í menningarhúsinu Hofi.

Starfsfólk bæjarins og skipulagsráðgjafi verða á staðnum til að segja frá og svara spurningum. Íbúar eru hvattir til að kynna sér skipulagið og koma ábendingum á framfæri.

Kynningarfundur fyrir fagaðila. Þriðjudaginn 12. október kl. 20 verður kynningarfundur fyrir fagaðila sem koma að uppbyggingu íbúðasvæða.

Markhópar fundarins eru meðal annars byggingarverktakar, fasteignasalar, mannvirkjahönnuðir og aðrir sem koma að uppbyggingu með einum eða öðrum hætti.

Fundurinn fer fram í Hömrum í menningarhúsinu Hofi.

Ábendingum er  hægt að koma á framfæri skriflega til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrar, Geislagötu 9, eða í gegnum netfangið skipulagssvid@akureyri.is

Skipulagstillagan verður í kynningarferli til 29. október. Þá verður unnið úr ábendingum frá íbúum, umsagnaraðilum og öðrum hagsmunaaðilum áður en skipulagsráð og bæjarstjórn taka tillöguna til frekar umfjöllunar og afgreiðslu.

Að því loknu verður tillagan auglýst og kynnt vel í sex vikur áður en hún verður tekin aftur fyrir til samþykktar.

Heimild: Akureyri.is