Home Fréttir Í fréttum Segja rangt að það stefni í metár í byggingu íbúða

Segja rangt að það stefni í metár í byggingu íbúða

23
0
Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Samtök iðnaðarins segja ekki rétt að það stefni í metár í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík, eins og Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar hélt fram á Facebook síðu sinni á föstudaginn.
Íbúðatalning samtakanna styðji alls ekki þá fullyrðingu.

„Samkvæmt talningu SI eru í Reykjavík nú tæplega 1.900 íbúðir í byggingu og nemur samdrátturinn á milli ára 24%.

<>

Á sama tíma í fyrra voru um 2.500 íbúðir í byggingu í Reykjavík sem þýðir að nú eru 600 færri íbúðir í byggingu,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.

Þar kemur jafnframt fram að á sama tíma árið 2019 hafi um 2.735 íbúðir verið í byggingu í Reykjavík og því mælist samdrátturinn frá þeim tíma um 31 prósent.

„Það verður því að teljast langt frá því að vera metár líkt og formaðurinn fullyrðir. Rétt er að benda á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur áætlað að það þurfi 3.000 til 3.500 nýjar íbúðir á markaðinn árlega næstu árin en ekki um 2.000 eins og formaðurinn heldur fram,“ segir í yfirlýsingunni.

Pawel sagði í færslu sinni að í fyrra hafi verið teknar í notkun 1.572 nýjar íbúðir í Reykjavík. „Það var met. Á fyrstu 6 mánuðum þessa árs voru þær orðnar 1.422.

Það stefnir því í annað met. Það er verið að byggja tvö þúsund íbúðir í þessum töluðu orðum. Skipulag fyrir þrjú þúsund íbúðir til viðbótar er klárt,“ skrifaði hann.

Þær tölur sem Pawel vitnar til eru hins vegar rangar að mati Samtaka iðnaðarins.

„Þar er um að ræða tölur frá byggingafulltrúum á íbúðum í byggingu sem skila sér seint og illa og lýsa þær þar af leiðandi með engum hætti þeirri stöðu sem er í íbúðabyggingum á hverjum tíma,“ segja samtökin.

„Þá vitnar formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar til þess að í deiliskipulagi sé samþykkt skipulag fyrir 3.000 íbúðir til viðbótar.

Hafa þarf í huga að í talningu SI er íbúð í byggingu frá því að sökkull er kominn þar til flutt er inn í hana.

Fjöldi íbúða í deiliskipulagi borgarinnar er því allt annar hlutur en talning samtakanna og er ekki mælikvarði á íbúðir í byggingu í borginni,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

„Vonir og væntingar um skipulag fara ekki saman við raunveruleikann enda tekur það langan tíma að gera byggingarsvæði tilbúið til framkvæmda,“ segir þar jafnframt.

„Hvað varðar þá skoðun formannsins að framsetning SI á talningu íbúða sé stundum eilítið fókuseruð á hið neikvæða undanfarin tvö ár þá sýna íbúðatalningar Samtaka iðnaðarins að nú hafa ekki verið færri íbúðir í byggingu síðustu fjögur ár.“

Samtökin segjast margsinnis hafa varað við þessari þróun. „Afleiðingar af of litlu framboði nýrra íbúða á markaðinn hafa komið fram í hækkun fasteignaverðs með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og vexti.

Ef brugðist hefði verið við þeim varnaðarorðum af hálfu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þ.m.t. í Reykjavík væri ekki sá mikli framboðsskortur sem einkennir íbúðamarkaðinn nú,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

Mynd: Ruv.is