Akureyrarbær hefur auglýst nýjar íbúðarhúsalóðir í Holtahverfi austan Krossanesbrautar á vef bæjarins.
22 lóðir eru til úthlutunar að þessu sinni og er miðað við að flestar þeirra verði byggingarhæfar í byrjun maí 2022 og aðrar í október sama ár.
Þetta eru lóðir fyrir fimm fjölbýlishús, fjögur raðhús, sjö parhús og sex einbýlishús. Gert er ráð fyrir að þar megi byggja að lágmarki 140 íbúðir.
Þetta er fyrri áfangi í lóðaúthlutunum í Holtahverfi, en samkvæmt nýju deiliskipulagi er í heild gert ráð fyrir rúmlega 30 lóðum og um 300 nýjum íbúðum á svæðinu.
„Helstu einkenni svæðisins eru miklar sjávarklappir með frábæru útsýni til allra átta. Ekki verður byggt á klöppunum sjálfum heldur á grasflötum í kring.
Við mótun skipulags fyrir svæðið hefur meðal annars verið lögð áhersla á sjálfbærni, lýðheilsu og umhverfisvænar samgöngur.
Vistgötur verða óvenjumargar og er horft til þess að stuðla að góðu umhverfi fyrir hjólandi og gangandi, til dæmis með því að koma fyrir gróðurbeðum og trjám í götunum,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.
Nánari upplýsingar um þessar nýju lóðir og aðrar sem sveitarfélagið hefur til úthlutunar eru á vefsvæðinu Lausar lóðir á heimasíðu bæjarins.
Á kortavef Akureyrarbæjar er jafnframt hægt að skoða allar lausar lóðir á Akureyri.
Umsóknarfrestur er til og með 6. október. Sótt er um lóðir rafrænt í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar,
Heimild: Kaffid.is