Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Undirrita samning vegna BT hússins

Undirrita samning vegna BT hússins

213
0
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, við undirtun samningsins í dag. Mynd: Eva Björk Ægisdóttir

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skrifaði í gær undir samning við verktakafyrirtækið Eykt vegna fullnaðarhönnunar og verkframkvæmdar á nýju bílastæða- og tæknihúsi Landspítala við Hringbraut.

<>

Stefnt að því byggingarnar verði teknar í notkun árið 2026, samkvæmt fréttatilkynningu.

Nýja byggingin er liður í heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Bílastæða- og tæknihúsið, sem hefur verið kallað BT húsið, er um 19.500 fermetrar að stærð og verður á átta hæðum, fimm hæðir ofan jarðar og þrjár hæðir neðanjarðar.

BT húsið mun rúma stæði fyrir um 550 bíla. Í húsinu verður einnig hjólageymsla fyrir 100 hjól, þar af um fjórðungur fyrir rafhjól.

Einnig er verið að byggja bílakjallara undir Sóleyjartorgi, sambærilegum bílakjallara Hörpunnar sem er á tveimur hæðum þar sem verða 200 bílastæði, aðallega ætluð sjúklingum og gestum. Þar verður aðgengi beint inn í spítalann.

Í tilkynningunni segir að tæknihluti hússins sé afar mikilvægur, en þar verði tæknirými fyrir varaaflsvélar Landspítalans sem tryggir að rafmagn verði til staðar á öllu svæðinu ef truflanir verða á afhendingu rafmagns.

Það sama gildir um búnað fyrir varakyndingu ef skortur verður á heitu vatni. Þá verður kælikerfi spítalans í BT húsinu en loftinntök og öll loftræsing innan spítalans.

Teikning af nýja bílastæða- og tæknihúsi Landspítalans við Hringbraut.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra:

„Samningurinn sem var undirritaður í dag, vegna byggingar bílastæða- og tæknihúss, er mikilvægur sem eitt af mörgum skrefum í þessu stóra uppbyggingarverkefni við Hringbraut. Bílastæða- og tæknihúsið mun gegna veigamiklu hlutverki í starfsemi spítalans, bæði svo hægt sé að leggja bílum og hjólum á svæðinu en einnig fyrir tæknilega starfsemi.

Miklu skiptir að bygging hússins hefur umhverfisvæna nálgun.“

Páll D. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar ehf.:

„Með Eykt í samstarfinu eru arkitektastofan Tark og verkfræðistofan VSÓ.

Við hjá Eykt þekkjum vel til Hringbrautarverkefnisins, en við erum núna að steypa upp meðferðarkjarnann og er þar allt á fullri ferð.

Samstarfið gengur vel við Nýja Landspítalann og við munum einhenda okkur í þetta verkefni líkt og önnur.”

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala:

„Ákveðið var að fara í alútboð, en þá eru hönnun og framkvæmd boðin út í einum og sama útboðspakkanum. Heildarniðurstaðan var að byggingarfyrirtækið Eykt, varð hlutskarpast.

Samningurinn sem hér er skrifað undir er því mikilvægur áfangi sem eitt af mörgum skrefum okkar fram á við í Hringbrautarverkefninu.”

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala:

„Þetta er spennandi verkefni sem við hlökkum til að sjá verða að veruleika. Þarna er mikilvægt tæknirými og síðan skiptir máli að tryggja fullnægjandi fjölda bílastæða fyrir þá sem erindi eiga á spítalann.

Við lögðum einnig sérstaka áherslu á að það væri gott pláss fyrir reiðhjól í húsinu enda fjölgar stöðugt því starfsfólki sem kýs að koma hjólandi í vinnuna.

Það er ánægjulegt að sjá hversu vel uppbyggingunni á Hringbraut miðar og allt starfsfólk Landspítalans fylgist spennt með.“

Heimild: Vb.is