Home Fréttir Í fréttum Segir byggingarleyfi gefið út á næstu dögum

Segir byggingarleyfi gefið út á næstu dögum

55
0
Mynd: Finnbogi Bjarnason

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík segir að vinnu við yfirferð gagna vegna útsýnispallsins á Bolafjalli ljúki á næstu dögum og að byggingarleyfi verði gefið út í framhaldi af því.

<>

Framkvæmdir við gerð útsýnispallsins voru stöðvaðar í síðustu viku og sagði Pétur Bolli Jóhannesson, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, að menn hefðu verið komnir langt fram úr sér þar sem framkvæmdir voru langt komnar þótt byggingarleyfið vantaði.

Pétur Bolli sagði í fréttum RÚV í síðustu viku að málið væri eitt það versta sem hann hefði séð.

Hann er byggingafulltrúi á öryggis- og varnarsvæðum Íslands. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gerði 13. júní athugasemdir í 20 liðum við umsókn um byggingarleyfi sem barst þremur dögum áður.

Leiðrétt gögn bárust ekki og ekkert byggingarleyfi var gefið út.

Jón Páll bæjarstjóri segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að útgáfa byggingarleyfis sé sameiginlegt verkefni bæjarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

„Vinna við að yfirfara gögn og afla frekari gagna tafðist því miður af óviðráðanlegum orsökum hjá báðum aðilum og því náðist ekki að gefa út byggingarleyfi á tilsettum tíma,“ skrifar Jón Páll.

„Það er hins vegar álit Bolungarvíkurkaupstaðar að hönnun pallsins og framkvæmdin sjálf standist allar þær gæðakröfur sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmdar af þessari stærðargráðu. Pallurinn er öruggt mannvirki sem stenst allar kröfur byggingarreglugerðar þess efnis.“

Heimild: Ruv.is