Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Stækka eldisstöðina fyrir 3,5 milljarða

Stækka eldisstöðina fyrir 3,5 milljarða

260
0
Seiðaeldisstöð Arctic Smolt í Norður-Botni í Tálknafirði. Aðsend mynd

Arctic Smolt hefur samið við Eykt og Eyvi um stækkun á seiðaeldisstöð fyrirtækisins í Norður-Botni í Tálknafirði.

<>

Arctic Smolt sem er dótturfélag laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish ehf. á Vestfjörðum hefur samið um stækkun á seiðaeldisstöð fyrirtækisins í Norður-Botni í Tálknafirði við verktakafyrirtækið Eykt annars vegar og norska félagið Eyvi hins vegar, sem hannar og selur heildarlausnir í seiðaeldisstöðvar.

Kostnaðaráætlun hljómar upp á um 3,5 milljarða og því verður þetta ein stærsta framkvæmd einkaaðila á Vestfjörðum, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Færeyska fiskeldisráðgjafafyrirtækið SMJ Aqua var Arctic Fish til ráðgjafar í hönnunar og útboðsferlinu.

„Við erum mjög ánægð með að fá Eykt og Eyvi að borðinu í þessu verkefni og að geta nú hafist handa við frekari uppbyggingu á Tálknafirði,“ segir Ragna Helgadóttir, verkefnastjóri framkvæmda hjá Arctic Fish.

Um er að ræða 4.200 fermetra nýbyggingu með samanlagt um 7.200 rúmmetra kerjarými.

Eftir stækkunina verður hægt að ala um 1.000 tonn af seiðum í stöðinni árlega eða sem samsvarar um fimm milljónum 200 gramma stórra seiða. Úr þeim fjölda ætti að vera hægt að ala um það bil 25.000 tonn af laxi í sláturstærð.

Framkvæmdir hefjast á næstu dögum um leið og byggingarleyfi hafa verið samþykkt en hönnun er langt komin.

Gert er ráð fyrir að verktími verði um tvö ár og gera má ráð fyrir að um 40-50 manns muni koma að verkinu á framkvæmdatíma.

Teikning af nýju seiðaeldisstöðinni.

„Við hjá Eyvi eru stolt og spennt yfir að hafa náð þessum samningi fyrir mjög kröfuharðan viðskiptavin,“ segir Heidi Kyvik, forstjóri Eyvi.

„Sameiginlega munum við og Arctic Smolt þróa sérsniðna lausn sem hentar þörfum þeirra og aðstæðum á Íslandi.

Í undirbúningsferlinu höfum við og félagið einbeitt okkur að því að finna lausnir sem tryggja öruggan rekstur og velferð seiðanna.

Fiskeldisiðnaðurinn er að stækka hratt og þróast í átt að sjálfbærari kerfum. Eyvi hefur tekið virkan þátt í þessari þróun og við teljum Ísland vera áhugavert land fyrir okkur til að kanna frekar.

Með því að tryggja ánægða viðskiptavini byggjum við upp orðspor Eyvi sem áreiðanlegs samstarfsaðila fyrir iðnaðinn.“

Verktakafyrirtækið Eykt mun sjá um að hanna og reisa bygginguna en Eyvi mun afhenda og setja upp allan búnað og tæki, s.s. vatnshreinsikerfi.

Vatnið er endurnýtt og hreinsað til að hámarka vatnsgæði og velferð seiðanna.

Við stöðina verður reist varaaflstöð með þremur 1,4 MW varaaflsvélum sem Aflhlutir ehf. mun afhenda og setja upp.

„Það gleður okkur að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem á sér stað vegna fiskeldis á Vestfjörðum.

Eykt sér um hönnun mannvirkjanna, ásamt samræmingu og þjónustu gagnvart hönnun og uppsetningu á RAS kerfinu.

Við erum mjög spennt að mæta vestur á Tálknafjörð og hefja þessa uppbyggingu,“ segir Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar.

Í dag starfa um 70 manns hjá Arctic Fish en félagið er með um 10.000 tonn af laxi í sjó í þremur fjörðum.

Gert er ráð fyrir að um 12.000 tonnum verði slátrað á þessu ári. Um fimmtán manns vinna í seiðaeldisstöð félagins og mun þeim fjölga lítillega við umrædda stækkun.

„Við erum að stækka ört sem félag og stefnum að því að slátra um 24.000 tonnum innan þriggja ára.

Til að mæta þeim vexti og áherslum okkar á stærri seiði sem eru styttri tíma í sjó er nauðsynlegt að ráðast í þessa fjárfestingu.

Við erum fullviss um að þeir aðilar sem að við höfum fengið í lið með okkur deila þeirri hugsjón að byggja hátækni seiðaeldisstöð sem stenst samanburð við það besta sem gerist í heiminum. Þannig tryggjum við öflugt eldi,“ segir Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish.

Heimild: Vb.is