Home Fréttir Í fréttum „Þetta er risavaxið verkefni”

„Þetta er risavaxið verkefni”

376
0
Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir 160 þúsund fermetrum af nýju byggingarmagni á Kringlureitnum auk bílakjallara, sem verður undir nánast öllu svæðinu. Aðsend mynd

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar tekur brátt gildi og þar með opnast fyrir þúsund íbúða uppbyggingu á Kringlureitnum.

<>

Nú hillir undir að nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar taki gildi. Þar með opnast dyrnar fyrir margar stórar framkvæmdir víða í borgarlandinu.

Ein sú stærsta og flóknasta er uppbygging um þúsund íbúða og atvinnuhúsnæðis á Kringlureitnum. Byrjað verður á því að rífa gamla Morgunblaðshúsið.

Frestur til að skila athugasemdum við nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar rennur út á þriðjudaginn. Gert er ráð fyrir að nýtt skipulag taki gildi á næstu mánuðum eða í síðasta lagi um áramótin.

Fasteignafélagið Reitir kynnti uppbyggingu á Kringlureitnum fyrir nokkrum árum. Í janúar 2018 undirrituðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, viljayfirlýsingu um skipulag og uppbyggingu svæðisins á grundvelli vinningstillögu Kanon arkitekta í hugmyndasamkeppni sem haldin var árið 2017.

„Málið er í ákveðnum farvegi en hefur ferðast dálítið hægt að okkar mati,“ segir Guðjón. „Það er búið að vinna heilmikla undirbúningsvinnu og forhönnun að uppbyggingu um þúsund íbúða á Kringlusvæðinu og þó nokkurs magns af atvinnuhúsnæði.

Til að geta hreyft málinu áfram verður það að ferðast samhliða nýrri aðalskipulagsbreytingu Reykjavíkur, sem er núna í kynningarferli.

Það byggingarmagn sem samkvæmt núgildandi aðalskipulagi er áætlað á Kringlusvæðinu er ekki nema brotabrot af því sem við og Reykjavíkurborg höfum orðið ásátt um að byggt verði á svæðinu. Aðalskipulagið, eins og það er núna, leyfir ekki slíka uppbyggingu.

Þegar við byrjuðum með þetta verkefni héldum við að við fengjum sérstaka aðalskipulagsbreytingu út af Kringlusvæðinu vegna þess hve stórt og flókið verkefni væri. Það gekk hins vegar ekki eftir.

Borgin vildi taka þetta undir stóru aðalskipulagsbreytinguna, þar sem verið er að færa byggingarmagn á milli svæða, gera ráð fyrir Borgarlínu og fleira. Ég skil svo sem vel að Kringlureiturinn hafi verið tekinn með í þennan pakka. Ég veit ekki betur en að nýtt aðalskipulag verði afgreitt fyrir áramót.“

Gamla Morgunblaðshúsið rifið

Guðjón segist gera ráð fyrir því að fyrsti áfanginn í uppbyggingu Kringlureitsins verði hornið sem afmarkast af Kringlumýrarbraut og Listabraut. Á þeirri lóð stendur gamla Morgunblaðshúsið og prentsmiðjan í dag.

„Við gerum ráð fyrir að þau hús verði rifin og þar verði fyrsti áfangi í uppbyggingu svæðisins. Á þessum reit verða íbúðir og/eða atvinnuhúsnæði.

Þennan byggingarreit eiga Reitir og því auðveldast fyrir okkur að byrja þar. Samhliða hefst vinna við risastóra framkvæmd, sem er bílakjallari sem verður undir nánast öllu svæðinu. Við vonumst til að geta hafið framkvæmdir á svæðinu árið 2023 og að þær taki í heildina 7-10 ár. Það er mín bjartsýnasta spá.

Þetta verkefni í heild sinni vil ég meina að sé stærsta uppbyggingarverkefni innan höfuðborgarsvæðisins um margra ára skeið,“ segir Guðjón. „

Til samanburðar voru byggðar 370 íbúðir á RÚV-reitnum og á Orkureitnum, við hornið á Suðurlandsbraut og Grensásvegi, er ráðgert að byggja 436 íbúðir. Við Kringluna verða byggðar um þúsund íbúðir, þannig að þetta er risavaxið verkefni.“

Heimild: Vb.is