Félögin Hitatækni, Varmi, Rafloft og Proventa munu sameinast undir nafni Hitatækni, að því er greint frá í tilkynningu Kontakt fyrirtækjaráðgjafar sem hefur umsjón með sameiningunni.
Sameinað félag leiðandi í loftræstingum
Hið sameinaða félag verður leiðandi í innflutningi, sölu og þjónustu á loftræstisamstæðum og öðrum hlutum sen tengjast loftræstingu í allar stærðir húsnæðis jafnt til atvinnuhúsnæðis og heimila en öll félögin eru sérhæfð í loftræstibúnaði ásamt fjölbreyttum búnaði fyrir hitastýringar, kælikerfi, rakatækjum og hússtjórnarkerfum.
„Félagið hefur á að skipa sérfræðingum í öllu sem viðkemur loftræstingu, frá hönnun og uppsetningu til viðhalds og verður sérstök áhersla lögð á að veita trausta þjónustu í reglubundnu viðhaldi loftræstikerfa hjá stórum sem smáum notendum.
Á síðustu árum hafa félögin komið að uppsetningu og innleiðingu búnaðar fyrir mörg stærstu byggingarverkefni á Íslandi, t.d. á sviði skóla, íþróttamannavirkja, gagnavera, skrifstofuhúsnæðis, híbýla og sjúkrahúsa,“ segir í tilkynningunni.
Þórir Guðmundsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri hins sameinaða félags og mun hann hefja störf í október. Þór er verkfræðingur frá Álaborgarháskóla og hefur hann starfað í loftræstigeiranum allan sinn feril.
Samanlögð velta nam nærri hálfum milljarði
Jón Þór Gunnarsson, stjórnarformaður Celsius Hitastýringa ehf, Friðmar M. Friðmarsson, framkvæmdastjóri Hitatækni ehf., Páll Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Varma ehf. og Guðmundur H. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Raflofts ehf og Proventa ehf segjast allir hlakka til samstarfsins og telja þeir sameiningu félaganna fela í sér veruleg tækifæri til að byggja upp stærra og öflugra félag sem gæti aukið þjónustu og þekkingarstig, viðskiptavinum þeirra til hagbóta.
Samkvæmt ársreikningum 2020 nam samanlögð velta félaganna fjögurra nærri hálfum milljarði eða 493 milljónum á síðasta ári og skiptist hún svona:
Hitatækni: 212 milljónir.
Varmi: 150 milljónir.
Raflotft: 108 milljónir.
Proventa: 23 milljónir.
Heimild: Mbl.is