Home Fréttir Í fréttum Húsnæðisvandi Grundaskóla kostar um milljarð

Húsnæðisvandi Grundaskóla kostar um milljarð

91
0
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudóttir - RÚV
Starfsemi Grundaskóla á Akranesi verður skipt niður á tvær byggingar á þessu skólaári.
Stokka þurfti alla starfsemina upp þegar alvarlegir ágallar á húsnæði skólans komu í ljós í vor.
Starfsmenn eru enn frá vinnu vegna heilsubrests. Um milljarður fer í framkvæmdir og aðra þætti vegna húsnæðisvandans.

Starfsemi Grundaskóla umturnaðist í vor og var skipt niður á sjö staði víðs vegar um Akranes þegar rakaskemmdir uppgötvuðust í skólanum og í ljós kom að glerullaragnir höfðu borist út í andrúmsloftið í hluta hans vegna ófullnægjandi frágangs.

<>

Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri, segir stóran hluta skólans enn ónothæfan en kennsla hefst á mánudag.

„Það hefur lagast mikið, því að í vor vorum við í alls sjö byggingum um tíma en stefnum að því að byrja í tveimur núna.

Það er bara tíundi bekkur sem er út úr húsi. En við erum reyndar aðþrengd. Stór skóli og það verður mjög þröngt í vetur.“

Í skólanum eru um sjö hundruð nemendur og hundrað starfsmenn. Það rýmkast um starfsemina þegar líður á veturinn og fleiri skólastofur komast í gagnið.

Lengra er þar til hægt verður að nota alla bygginguna þar sem ákveðið var að endurnýja elstu álmu skólans með öllu. Því verki á að ljúka 2024.

Sigurður Arnar segir að þetta sé vissulega kostnaðarsamt.

„Það er reiknað með að beinn kostnaður sé sjö til átta hundruð milljónir en með hliðarverkefnum sé þetta nálægt því að vera einn milljarður.“

Bæði nemendur og starfsfólk fundu fyrir einkennum af völdum þessara lélegu loftgæða. Öll börn séu nú heil heilsu.

„Það hefur ekki gengið eins með starfsmenn og við erum með tvo starfsmenn úti í augnablikinu sem eru ekki komnir til vinnu, því miður, og hafa ekki náð bata.“

Sigurður Arnar segir að starfsfólk hafi ekki fengið álagsgreiðslur vegna þessa og ákvörðun um hvort til þeirra komi hafi ekki verið tekin.

Heimild: Ruv.is