Grafinn hefur verið skurður í mynni Nátthaga í nágrenni við gosstöðvarnar og í hann lagðar lagnir, rör og ýmsar tegundir af einangrunar- eða fylliefnum.
Þar á svo að freista þess að mæla áhrif hraunrennslis á lagnir í jörðu.
Frá þessu greinir Landsnet í tilkynningu.
Þar segir, að Landsnet hafi fengið afnot af öðrum enda skurðsins og í hann verði settur strengsandur og hann þjappaður eftir kúnstarinnar reglum.
Þá verði hitamælar settir í skurðinn og svo sé fyllt upp í hann.
„Svo bíðum við spennt og vonumst til þess að hraunið renni yfir skurðinn. Heppnist þessi tilraun vonumst við til þess að eignast mæliniðurstöður sem telja má einstakar á heimsvísu og verða mjög mikilvægt innlegg í vitneskju um áhrif hraunflæðis á jarðstrengi og aðra innviði sem grafnir eru í jörðu,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að aðrir sem komi að þessu verkefni séu m.a. Almannavarnir, Jarðvísindastofnun HÍ, Veðurstofa Íslands, Landsvirkjun, Neyðarlínan, Verkís, Efla, Míla, Gagnaveitan, Tensor, Rafholt o.fl.
Heimild: Mbl.is