Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Vegagerðin og ÞG Verk skrifa undir samning vegna byggingar brúa yfir Hverfisfljót...

Vegagerðin og ÞG Verk skrifa undir samning vegna byggingar brúa yfir Hverfisfljót og Núpsvötn

311
0
Skrifað undir samning um byggingu brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verks skrifuðu á mánudag undir verksamning vegna byggingar brúa yfir Hverfisfljót og Núpsvötn.

<>

ÞG Verk áttu lægsta tilboð í verkið eða 1.425 m.kr. sem var nánast sama upphæð og áætlaður verktakakostnaður.

Verkinu skal að fullu lokið um miðjan nóvember á næsta ári. Einbreiðum brúm fækkar.

Báðar brýrnar leysa af hólmi einbreiðar brýr og mun því slíkum fækka um tvær á Hringveginum, sunnan Vatnajökuls, við þessa framkvæmd.

Tilgangurinn með byggingunni einmitt að fækka einbreiðum brúm og auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum en í báðum tilvikum mun umferðaröryggi aukast til muna.

Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verks sagði við undirskriftina að framkvæmdir myndu hefjast strax í næstu eða þarnæstu viku.

“Ég og mínir menn erum mjög spenntir fyrir því að fara í þetta verk.” ÞG Verk eru einnig að smíða nýja brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi og segir Þorvaldur að það séu heilmikil samlegðaráhrif af því að vinna þessi verk saman og hagræðing af ýmsu tagi.

Skrifað undir samning um byggingu brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót

“Þetta hentar okkur mjög vel og mun spilast vel með Sólheimasandsverkinu.”

“Það er frábært að koma þessum verkum út en við hjá Vegagerðinni erum í kappi við að koma út verkum,” sagði Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og bætti við að það væri fagnaðarefni að fækka einbreiðum brúm á Hringveginum og víðar þar sem umferð er mikil.

Áherslan hjá Vegagerðinni væri að fækka einbreiðum brúm á stærri köflum þannig að ekki væri ein og ein slík á stangli þegar kæmi að umferðarmiklum vegum.

Við þessa framkvæmd og með brúnni á Sólheimasandi, sem var ein af þessum stöku brúm, mun einbreiðum brúm á Hringveginum fækka úr 32 í 29.

Einbreiðum brúm hefur fækkað hratt síðustu ár þótt mikið átak sé enn eftir sérstaklega á Suðausturlandi.

Um verkið:

Byggð verður ný 74 m löng og tvíbreið brú yfir Hverfisfljót á Hringvegi (1), um 20 m neðan núverandi brúa.

Brúin verður verður samverkandi stálbitabrú með steyptu gólfi í þremur höfum.

Hverfisfljót – framkvæmdasvæði

Einnig er innifalin vegagerð til að tengja nýja brú við núverandi vegakerfi.

Nýr vegur og ný brú verða í nýju vegstæði á 1,1 km löngum kafla og endurbyggður vegur í núverandi vegstæði á 1,1 km löngum kafla. Nýir vegir verða því um 2,1 km.

Einnig verður byggður nýr áningarstaður við Hverfisfljót í stað núverandi áningarstaðar sem hverfur undir nýjan veg.

Byggð verður ný 138 m löng tvíbreið brú yfir Núpsvötn á Hringvegi (1), ofan núverandi brúarstæðis, auk tengivega við núverandi vegakerfi beggja vegna.

Núpsvötn – framkvæmdasvæði

Brúin verður eftirspennt steinsteypt brú með steyptu gólfi í fimm höfum.

Nýr vegur og ný brú verða í nýju vegstæði á 1,9 km löngum kafla.

Einnig verður byggður nýr áningarstaður vestan nýju brúarinnar.

Heimild: Vegagerðin.is