Home Fréttir Í fréttum Páll á Húsafelli harmar að rífa þurfi legsteinasafnið

Páll á Húsafelli harmar að rífa þurfi legsteinasafnið

146
0
Legsteinasafnið verður með öllu horfið þann 30. ágúst. Mynd: FACEBOOK/PÁLL Á HÚSAFELLI

Niðurrif húss sem átti að hýsa legsteinasafn á landi listamannsins Páls á Húsafelli hófst í fyrradag.

<>

Páll var dæmdur til að fjarlægja húsið af Héraðsdómi Vesturlands eftir að nágranni hans Sæmundur Ásgeirsson höfðaði mál á hendur honum.

Sæmundur rekur gistiheimilið Gamla bæ á Húsafelli 1, sunnan Húsafellskirkju, en Páll býr að Húsafelli 2 sem er norðan kirkjunnar.

Páll á einnig landið Bæjargil sem er sunnan við kirkjuna.

Páll greinir frá því að niðurrifið sé hafið í færslu á Facebooksíðu sinni. Hann segir að ákvörðun héraðsdóms hafi valdið honum mikilli sorg og kvíða.

Hann segir húsið hafa verið reist í samstarfi með Biskupsstofu og að fengir hafi verið einir færustu arkitektar þjóðarinnar til hönnunar safnsins, þeir Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon.

Páll segir húsið hafi fallið einstaklega vel inn í landslagið og að sér finnist það vera listaverk í sjálfu sér.

Páll segir að eftir uppkvaðningu dómsins hafi sér verið gefnir þrjátíu dagar til að rífa og fjarlægja öll ummerki um legsteinahúsið, sem er í hans huga ekki einungis hús heldur stórkostlegt listaverk sem sómi er að og mikil staðarprýði.

Sæmundur hafi gefið honum þá von um að hægt væri að leysa málið með samkomulagi.

Því miður sé nú ljóst að kröfur Sæmundar, til að felldar verði niður dagsektir að upphæð 40.000 krónur á dag, séu með öllu óaðgengilegar fyrir sig og sé honum því nauðugur einn kostur að rífa húsið.

Heimild: Visir.is