Home Fréttir Í fréttum Áform um stóra vindmyllugarða milli Langaness og Vopnafjarðar

Áform um stóra vindmyllugarða milli Langaness og Vopnafjarðar

133
0
Jónas Egilsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, í beinni útsendingu í 719 metra hæð ofan af Gunnólfsvíkurfjalli. Finnafjörður og Langanesströnd eru fyrir neðan. Mynd: EINAR ÁRNASON

Sveitarstjórn Langanesbyggðar skoðar nú hugmyndir um að reisa hátt í þrjúhundruð vindmyllur á sex svæðum milli Langaness og Vopnafjarðar.

<>

Rætt er um að allt að eitt þúsund megavött raforku verði virkjuð í vindmyllugörðunum.

Fjallað var um málið í beinni útsendingu af Gunnólfsvíkurfjalli í fréttum Stöðvar 2 þaðan sem horft var yfir Finnafjörð, svæðið sem búið er að skipuleggja sem stórskipahöfn. Þar var rætt við Jónas Egilsson, sveitarstjóra Langanesbyggðar.

Teikning af stórskipahöfn í Finnafirði.
GRAFÍK/EFLA.

En hverjar standa á bak við áformin?

„Þetta eru tveir aðilar aðallega. Efla annarsvegar með samstarfsaðilum á bak við Finnafjarðarverkefnið. Og svo eru í skoðun möguleikar frá norska fyrirtækinu Zephyr, eða dótturfyrirtæki þess á Íslandi,“ sagði Jónas.

Norska félagið Zephyr undirbýr vindorkuver í landi Eiðis. Efla og samstarfsaðilar eru að horfa á Sauðanesháls, Brekknaheiði , Langanesströnd, Digranesi en einnig svæði í Vopnafirði.

Frá Brekknaheiði, ofan Þórshafnar. Gunnólfsvíkurfjall í baksýn.
Mynd: EINAR ÁRNASON

Sveitarstjórinn segir áformin skammt á veg komin. Þau hafi verið kynnt í sveitarstjórn. Jafnframt sé verið að reyna að koma þeim í rannsóknaráætlun til að meta þessa möguleika. En til hvers á að nota orkuna?

„Hugmyndin er að framleiða vetni og ammoníak til þess að nota sem orku á skip, aðallega.“

-Erum menn þá að hugsa um að nýta hafnarsvæðið við Finnafjörð, stórskipahöfnina?

„Já, það er hluti af hugmyndinni. Og jafnvel að vera með fiskeldi á landi.“

-Þið eruð á sama tíma að tala um þjóðgarð. Fer þetta saman við þjóðgarð á Langanesi?

„Við erum að velta upp hugmyndum. Já og nei. Hugmyndir hérna í Finnafirði rekast ekki á þær. En hugmyndir sem eru um vindmyllugarð undir Heiðarfjalli þær myndu ekki ganga með þjóðgarði,“ svarar sveitarstjóri Langanesbyggðar.

Heimild: Visir.is