Akureyrarbær hefur birt á vef sínum þær fjórar tillögur sem dómnefnd valdi úr í hönnunarsamkeppni um viðbyggingu við Ráðhús Akureyrarbæjar og endurbætur á núverandi húsnæði og lóð.
Yrki arkitektar hlutu 1. verðlaun fyrir tillögu sína og hún var því valin til frekari hönnunar og útfærslu.
Markmiðið er að færa alla miðlæga starfsemi Akureyrarbæjar á einn stað en fram að þessu hefur stjórnsýslan verið til húsa bæði að Geislagötu 9 og Glerárgötu 26.
Í tilkynningu bæjarins segir að með því að sameina alla stjórnsýslu sveitarfélagsins undir einu þaki í húsnæði sem er alfarið í eigu Akureyrarbæjar muni nást fram umtalsvert hagræði og mun lægri rekstrarkostnaður til lengri tíma litið.
„Dómnefnd hafði það að meginmarkmiði að finna tillögu sem leysti viðfangsefnið á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist sem hæfði Ráðhúsi Akureyrar og væri í samræmi við áherslur sem fram komu í samkeppnislýsingu.
Dómnefnd leitaði einkum eftir snjöllum hugmyndum með það að meginmarkmiði að finna tillögu sem leysti viðfangsefnið á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist,“ segir á vef bæjarins.
Samkeppnin var hönnunarsamkeppni að undangengnu forvali sem var opið öllum sem uppfylltu skilyrði forvalslýsingar.
Forvalið var auglýst á vef Akureyrarbæjar, á vef Arkitektafélags Íslands og Evrópska efnahagssvæðinu. Skilafrestur var til 30. mars 2021. Alls bárust 14 umsóknir um þátttöku í forvalinu.
Forvalsnefnd gaf umsóknum stig í samræmi við forvalsgögnin og var niðurstaðan að eftirfarandi fjórum stofum var boðin þátttaka í boðkeppninni: A2F arkitektum, Studio 4A, Studio Granda og Yrki arkitektum. Keppnislýsing var gefin út 16. apríl og fengu valdir hönnuðirnir rúma tvo mánuði til að skila inn tillögum. Skilafrestur var til 24. júní 2021.
Tillögur frá stofunum fjórum:
14604 – 1. verðlaun – Yrki arkitektar
20216 – Athyglisverð tillaga – Studio 4A
Heimild: Kaffid.is