Home Fréttir Í fréttum Blöndubrúin komin heim en með nýtt hlutverk

Blöndubrúin komin heim en með nýtt hlutverk

141
0
Mynd: Ágúst Þór Bragason - RÚV
Elsta samgöngumannvirki á Íslandi fær nú nýtt hlutverk. Gamla Blöndubrúin sem áður fyrr var hluti af þjóðvegi 1 verður göngubrú yfir í eyjuna Hrútey á Blönduósi.

Elsta samgöngumannvirki landsins

Um helgina var fyrsta fasta járnbrú á Íslandi og elsta samgöngumannvirki sem er enn til, sett á nýjar undirstöður. Hún þjónar framvegis gangandi vegfarendum til að komast yfir ána Blöndu og yfir í fólkvang Blönduósbúa í Hrútey.

<>

Ágúst Þór Bragason, forstöðumaður eigna- og framkvæmdasviðs Blönduósbæjar, segir sögu brúarinnar nokkuð merkilega. „Þessi brú var hér reist upphaflega 1897 á Blönduósi, flutt til landsins 1896, smíðuð í Noregi og þetta er fyrsta brú sem hönnuð er af Íslendingi á Íslandi og þriðja brú yfir stórfljót á Íslandi.“

Mikil samgöngubót

„Þetta var mikill farartálmi, að komast yfir Blöndu, það fórst hér að jafnaði einn maður á 20 ára fresti í ánni áður. Þetta var mikið hagsmunamál og samgöngubót,“ segir Ágúst.

Búsetuskilyrði á Blönduósi breyttust mikið með tilkomu brúarinnar og má segja að byggðin hafi byggst í kringum brúnna.

Brú með mörg hlutverk

Brúin var í notkun til ársins 1962 þegar hún var flutt í Svartárdal og notuð þar til ársins 2000. Hún var flutt aftur heim til Blönduóss árið 2001 og hefur fram að þessu verið geymd í Kleifarhorninu þar sem hún var uppgerð.

Ágúst segir að fyrstu hugmyndir um að gera brúna að göngubrú séu frá árinu 2013 þannig að verkefnið hefur tekið átta ár.

Mynd: Ágúst Þór Bragason – RÚV

Brúin komin á nýjan framtíðarstað

Brúin er liðlega 30 tonn og um 40 metrar á lengd. Það var því mikið skipulagsverk að keyra með hana frá viðgerðarsvæðinu og á nýja stöpla við Hrútey.

Appelsínugul viðvörun var í gildi þegar áætlað hafði verið að flytja brúna. Það þurfti því að bíða eftir að storminn lægði til að hægt væri að lyfta henni með stærsta krana landsins og setja hana á sinn framtíðarstað.

Það var síðan að viðstöddu fjölmenni sem henni var lyft á stöplana, enda bæjarbúar ánægðir með að brúin sé komin aftur heim og komin með nýtt hlutverk, brúin sem Blönduós byggðist í kringum fyrir meira en 120 árum.

Heimild: Mbl.is