Home Fréttir Í fréttum Reisa á íbúðir í stað verslunarkjarnans í Arnarbakka

Reisa á íbúðir í stað verslunarkjarnans í Arnarbakka

127
0
Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að verslunarkjarni við Arnarbakka í neðra-Breiðholti verði rifinn og í stað hans reistar níutíu nýjar íbúðir, almennar jafnt sem námsmannaíbúðir. Þetta kemur fram í fundargerð.

Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs um breytingar á deiliskipulagi Breiðholts I fólst í heimild til niðurrifs á verslunar- og þjónustuhúsnæðinu í Arnarbakka 2-6, uppbyggingu námsmannaíbúða, íbúðarhúsnæðis, gróðurhúss og endurbóta á grænu svæði.

<>

Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu og hefur verið vísað til borgarráðs.

Kjarninn keyptur á hundruði milljóna

Í júní ársins 2018 samþykkti Reykjavíkurborg að verja 752 milljónum í kaup á verslunarkjarnanum í Arnarbakka og verslunarhúsnæði í Völvufelli.

Áætlað var að ráðast í skipulagsbreytingu og opna fyrir frekari uppbyggingu á væðunum fyrir verslun, þjónustu og íbúðarhúsnæði.

Kaupin voru umdeild en Sjálfstæðismenn í borgarráði sögðu af því tilefni að eðlileg og tímabær uppbygging á svæðinu ætti ekki að þurfa að kosta borgina hundruð milljóna króna. Borgin ætti ekki að þurfa að kaupa húseignir sem væri algjör óvissa um hvernig myndi nýtast.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundinum eru áformin gagnrýnd. „Borgin keypti gamlan verslunar- og þjónustukjarna við Arnarbakka fyrir þremur árum síðan fyrir hálfan milljarð króna og stóð þá til að „efla hverfiskjarnann við Arnarbakka, bæta þjónustu og standa að samfélagslegri uppbyggingu á reitnum.“

Stefnt var að því að úrsérgengnir verslunarkjarnar yrðu endurlífgaðir,“ segir í bókuninni. Þó að þörf sé á íbúðum í borginni skjóti það skökku við að fallið sé frá upphaflegum áformum um að endurlífga kjarnann og leggja þess í stað áherslu á íbúðablokkir.

Þrjár íbúðabyggingar og gróðurhús

Í bókun áheyrnarfulltrúa Flokks Fólksins er „óraunhæf bjartsýni“ um umferð og bílastæði í skýrslunni gagnrýnd. Framtíðarspár um umferð verði að vera raunhæfar.

Áætlað er að rífa Arnarbakka 2,4 og 6 og reisa í staðinn þrjár íbúðabyggingar á 3-4 hæðum og verður heimilaður rekstur verslunnar á jarðhæð tveggja af þremur byggingum. Einnig er gert ráð fyrir gróðurhúsi á einni hæð á lóð Arnarbakka 10.

Heimild: Ruv.is