Lífeyrissjóður Verslunarmanna hefur ákveðið að lækka vexti og hækka veðhlutfall á sjóðsfélaglánum.
Sjóðurinn ætlar að hefja óverðtryggð útlán samhliða því að lækka vexti á verðtryggðum lánum. Þá verður lánshlutfall hækkað upp í 75 prósent, úr 65 prósentum. Allt er þetta gert til að auðvelda sjóðsfélögum að taka lán.
Varfærin undanfarin ár
Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir að aðstæður á fasteignamarkaði gefi kost á þessum breytingum.
„Lífeyrissjóður Verslunarmanna hefur stundað lán til sjóðsfélaga í áratugi. Hlutur sjóðsfélagalána í eignarsafni sjóðsins hefur lækkað nokkuð undanfarin ár,“ segir Guðmundur. Aðstæður á fasteignamarkaði bjóða upp á að auka lánshlutfall. Sjóðurinn hafi verið varfærin undanfarin ár og lánin lægri en margar aðrar lánastofnanir veita.
Nú eru teikn á lofti um að hagkerfið sé að hitna að nýju, og heimili voru mjög skuldsett þegar hrunið skall á árið 2008. Guðmundur hefur ekki áhyggjur af því að sú staða skapist aftur með ódýrari lánum.
„Það má segja að núna er verklag nokkuð annað. Stíf greiðslumöt og lánhæfismöt eru í gangi. Nú er betur tengt saman greiðsluhæfi og veðsetning hjá einstaklingum.“
Staðan vænkast mjög
Guðmundur segir að staða lífeyrissjóða undanfarin ár hafi vænkast mjög en breytingarnar á útlánum Lífeyrissjóðs verslunarmanna er ætlað að auka hlutdeild þeirra í eignasafni sjóðsins.
„Frá efnahagshruni hefur verið mjög góð raunávöxtun lífeyrissjóða. Allflestir eignarflokkar hafa skilað jákvæðri raunávöxtun, bæði innlend og erlend hlutabréf. Staða sjóðanna hefur vænkast mjög.“
Framkvæmdastjórinn segir að lánin séu mjög svo samkeppnishæf, kjörin séu góð og hagur sjóðsfélaga og sjóðsins sjálfs að auka lánshlutfall.
Heimild: Visir.is